‏ Psalms 106

1Halelúja! Þakkið Drottni, því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu. 2Hver getur sagt frá máttarverkum Drottins, kunngjört allan lofstír hans? 3Sælir eru þeir, sem gæta réttarins, sem iðka réttlæti alla tíma. 4Minnst þú mín, Drottinn, með velþóknun þeirri, er þú hefir á lýð þínum, vitja mín með hjálpræði þínu, 5að ég megi horfa með unun á hamingju þinna útvöldu, gleðjast yfir gleði þjóðar þinnar, fagna með eignarlýð þínum. 6Vér höfum syndgað ásamt feðrum vorum, höfum breytt illa og óguðlega. 7Feður vorir í Egyptalandi gáfu eigi gætur að dásemdarverkum þínum, minntust eigi þinnar miklu miskunnar og sýndu Hinum hæsta þrjósku hjá Hafinu rauða. 8Þó hjálpaði hann þeim sakir nafns síns til þess að kunngjöra mátt sinn. 9Hann hastaði á Hafið rauða, svo að það þornaði upp, og lét þá ganga um djúpin eins og um eyðimörk. 10Hann frelsaði þá af hendi hatursmanna þeirra og leysti þá af hendi óvinanna. 11Vötnin huldu fjendur þeirra, ekki einn af þeim komst undan. 12Þá trúðu þeir orðum hans, sungu honum lof. 13En þeir gleymdu fljótt verkum hans, treystu eigi á ráð hans. 14Þeir fylltust lysting í eyðimörkinni og freistuðu Guðs í öræfunum. 15Þá veitti hann þeim bæn þeirra og sendi þeim megurð. 16Þá öfunduðust þeir við Móse í herbúðunum, við Aron, hinn heilaga Drottins. 17Jörðin opnaðist og svalg Datan og huldi flokk Abírams, 18eldur kviknaði í flokki þeirra, loginn brenndi hina óguðlegu. 19Þeir bjuggu til kálf hjá Hóreb og lutu steyptu líkneski, 20og létu vegsemd sína í skiptum fyrir mynd af uxa, er gras etur. 21Þeir gleymdu Guði, frelsara sínum, þeim er stórvirki gjörði í Egyptalandi, 22dásemdarverk í landi Kams, óttaleg verk við Hafið rauða. 23Þá hugði hann á að tortíma þeim, ef Móse, hans útvaldi, hefði eigi gengið fram fyrir hann og borið af blakið, til þess að afstýra reiði hans, svo að hann skyldi eigi tortíma. 24Þeir fyrirlitu hið unaðslega land og trúðu eigi orðum hans. 25Þeir mögluðu í tjöldum sínum og hlýddu eigi á raust Drottins. 26Þá lyfti hann hendi sinni gegn þeim og sór að láta þá falla í eyðimörkinni, 27tvístra niðjum þeirra meðal þjóðanna og dreifa þeim um löndin. 28Þeir dýrkuðu Baal Peór og átu fórnir dauðra skurðgoða. 29Þeir egndu hann til reiði með athæfi sínu, og braust því út plága meðal þeirra. 30En Pínehas gekk fram og skar úr, og þá staðnaði plágan. 31Og honum var reiknað það til réttlætis, frá kyni til kyns, að eilífu. 32Þeir reittu hann til reiði hjá Meríba-vötnum, þá fór illa fyrir Móse þeirra vegna, 33því að þeir sýndu þrjósku anda hans, og honum hrutu ógætnisorð af vörum. 34Þeir eyddu eigi þjóðunum, er Drottinn hafði boðið þeim, 35heldur lögðu þeir lag sitt við heiðingjana og lærðu athæfi þeirra. 36Þeir dýrkuðu skurðgoð þeirra, og þau urðu þeim að snöru, 37þeir færðu að fórnum sonu sína og dætur sínar illum vættum 38og úthelltu saklausu blóði, blóði sona sinna og dætra, er þeir fórnfærðu skurðgoðum Kanaans, svo að landið vanhelgaðist af blóðskuldinni. 39Þeir saurguðust af verkum sínum og frömdu tryggðrof með athæfi sínu. 40Þá upptendraðist reiði Drottins gegn lýð hans, og hann fékk viðbjóð á arfleifð sinni. 41Hann gaf þá á vald heiðingjum, og hatursmenn þeirra drottnuðu yfir þeim. 42Óvinir þeirra þjökuðu þá, og þeir urðu að beygja sig undir vald þeirra. 43Mörgum sinnum bjargaði hann þeim, en þeir sýndu þrjósku í ráði sínu og urðu að lúta sakir misgjörðar sinnar. 44Samt leit hann á neyð þeirra, er hann heyrði kvein þeirra. 45Hann minntist sáttmála síns við þá og aumkaðist yfir þá sakir sinnar miklu miskunnar 46og lét þá finna miskunn hjá öllum þeim er höfðu haft þá burt hernumda. 47Hjálpa þú oss, Drottinn, Guð vor, og safna oss saman frá þjóðunum, að vér megum lofa þitt heilaga nafn, víðfrægja lofstír þinn. 48Lofaður sé Drottinn, Ísraels Guð, frá eilífð til eilífðar. Og allur lýðurinn segi: Amen! Halelúja.
Copyright information for Icelandic