Philippians 1
1Páll og Tímóteus, þjónar Krists Jesú, heilsa öllum heilögum í Filippí, sem eru í Kristi Jesú, ásamt biskupum þeirra og djáknum. 2Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. 3Ég þakka Guði mínum í hvert skipti, sem ég hugsa til yðar, 4og gjöri ávallt í öllum bænum mínum með gleði bæn fyrir yður öllum, 5vegna samfélags yðar um fagnaðarerindið frá hinum fyrsta degi til þessa. 6Og ég fulltreysti einmitt því, að hann, sem byrjaði í yður góða verkið, muni fullkomna það allt til dags Jesú Krists. 7Víst er það rétt fyrir mig að bera þennan hug til yðar allra. Ég hef yður í hjarta mínu, og þér eigið allir hlutdeild með mér í náðinni, bæði í fjötrum mínum og þegar ég er að verja fagnaðarerindið og staðfesta það. 8Guð er mér þess vitni, hvernig ég þrái yður alla með ástúð Krists Jesú. 9Og þetta bið ég um, að elska yðar aukist enn þá meir og meir að þekkingu og allri dómgreind, 10svo að þér getið metið þá hluti rétt, sem máli skipta, og séuð hreinir og ámælislausir til dags Krists, 11auðugir að réttlætis ávexti þeim, er fæst fyrir Jesú Krist til dýrðar og lofs Guði. 12En ég vil, bræður, að þér vitið, að það, sem fram við mig hefur komið, hefur í raun orðið fagnaðarerindinu til eflingar. 13Því að það er augljóst orðið í allri lífvarðarhöllinni og fyrir öllum öðrum, að ég er í fjötrum vegna Krists, 14og flestir af bræðrunum hafa öðlast meira traust á Drottni við fjötra mína og fengið meiri djörfung til að tala orð Guðs óttalaust. 15Sumir prédika að sönnu Krist af öfund og þrætugirni, en sumir gjöra það líka af góðum hug. 16Þeir gjöra það af kærleika, vegna þess að þeir vita, að ég er settur fagnaðarerindinu til varnar. 17Hinir prédika Krist af eigingirni og ekki af hreinum hug, heldur í þeim tilgangi að bæta þrengingu ofan á fjötra mína. 18En hvað um það! Kristur er allt að einu boðaður, hvort sem það heldur er af uppgerð eða heilum hug. Og þetta gleður mig. Já, það mun áfram gleðja mig. 19Því að ég veit, að þetta verður mér til frelsunar fyrir bænir yðar og hjálpina, sem andi Jesú Krists veitir mér. 20Og það er einlæg löngun mín og von, að ég í engu megi til skammar verða, heldur að Kristur megi í allra augum, nú eins og ávallt, vegsamlegur verða í mér, hvort sem það verður með lífi mínu eða dauða. 21Því að lífið er mér Kristur og dauðinn ávinningur. 22En eigi ég áfram að lifa á jörðinni, þá verður meiri árangur af starfi mínu. Veit ég eigi hvort ég á heldur að kjósa. 23Ég á úr tvennu vöndu að ráða: Mig langar til að fara héðan og vera með Kristi, því að það væri miklu betra. 24En yðar vegna er það nauðsynlegra, að ég haldi áfram að lifa hér á jörðu. 25Og í trausti þess veit ég, að ég mun lifa og halda áfram að vera hjá yður öllum, yður til framfara og gleði í trúnni. 26Þegar ég kem aftur til yðar, getið þér vegna mín enn framar hrósað yður í Kristi Jesú. 27En hvað sem öðru líður, þá hegðið yður eins og samboðið er fagnaðarerindinu um Krist. Hvort sem ég kem og heimsæki yður eða ég er fjarverandi, skal ég fá að heyra um yður, að þér standið stöðugir í einum anda og berjist saman með einni sál fyrir trúnni á fagnaðarerindið 28og látið í engu skelfast af mótstöðumönnunum. Fyrir þá er það merki frá Guði um glötun þeirra, en um hjálpræði yðar. 29Því að yður er veitt sú náð fyrir Krists sakir, ekki einungis að trúa á hann, heldur og að þola þjáningar hans vegna. 30Nú eigið þér í sömu baráttu sem þér sáuð mig heyja og heyrið enn um mig.
Copyright information for
Icelandic