Philippians 2
1Ef nokkurs má sín upphvatning í nafni Krists, ef kærleiksávarp, ef samfélag andans, ef ástúð og meðaumkun má sín nokkurs, 2þá gjörið gleði mína fullkomna með því að vera samhuga, hafa sama kærleika, einn hug og eina sál. 3Gjörið ekkert af eigingirni eða hégómagirnd. Verið lítillátir og metið aðra meira en sjálfa yður. 4Lítið ekki aðeins á eigin hag, heldur einnig annarra. 5Verið með sama hugarfari sem Jesús Kristur var. 6Hann var í Guðs mynd. En hann fór ekki með það sem feng sinn að vera Guði líkur. 7Hann svipti sig öllu, tók á sig þjóns mynd og varð mönnum líkur. 8Hann kom fram sem maður, lægði sjálfan sig og varð hlýðinn allt til dauða, já, dauðans á krossi. 9Fyrir því hefur og Guð hátt upp hafið hann og gefið honum nafnið, sem hverju nafni er æðra, 10til þess að fyrir nafni Jesú skuli hvert kné beygja sig á himni, jörðu og undir jörðu 11og sérhver tunga játa Guði föður til dýrðar: Jesús Kristur er Drottinn. 12Þess vegna, mínir elskuðu, þér sem ætíð hafið verið hlýðnir, vinnið nú að sáluhjálp yðar með ugg og ótta eins og þegar ég var hjá yður, því fremur nú, þegar ég er fjarri. 13Því að það er Guð, sem verkar í yður bæði að vilja og framkvæma sér til velþóknunar. 14Gjörið allt án þess að mögla og hika, 15til þess að þér verðið óaðfinnanlegir og hreinir, flekklaus Guðs börn meðal rangsnúinnar og gjörspilltrar kynslóðar. Þér skínið hjá þeim eins og ljós í heiminum. 16Haldið fast við orð lífsins, mér til hróss á degi Krists. Þá hef ég ekki hlaupið til einskis né erfiðað til ónýtis. 17Og enda þótt blóði mínu verði úthellt við fórnarþjónustu mína, þegar ég ber trú yðar fram fyrir Guð, þá gleðst ég og samgleðst yður öllum. 18Af hinu sama skuluð þér einnig gleðjast og samgleðjast mér. 19En ég hef þá von til Drottins Jesú, að ég muni bráðum geta sent Tímóteus til yðar, til þess að mér verði einnig hughægra, þá er ég fæ að vita um hagi yðar. 20Ég hef engan honum líkan, sem lætur sér eins einlæglega annt um hagi yðar. _ 21Allir leita þess, sem sjálfra þeirra er, en ekki þess, sem Krists Jesú er. _ 22En þér vitið, hvernig hann hefur reynst, að hann hefur þjónað að boðun fagnaðarerindisins með mér eins og barn með föður sínum. 23Hann vona ég þá að geta sent, jafnskjótt og ég sé, hvað um mig verður. 24En ég ber það traust til Drottins, að ég muni og bráðum koma sjálfur. 25Ég taldi það og nauðsynlegt að senda til yðar Epafrodítus, bróður minn, samverkamann og samherja, en sendimann yðar og erindreka í því að bæta úr þörf minni. 26Hann hefur þráð yður alla og liðið illa út af því, að þér höfðuð heyrt, að hann hefði orðið sjúkur. 27Því sjúkur varð hann, að dauða kominn, en Guð miskunnaði honum og ekki einungis honum, heldur og mér, til þess að ég skyldi eigi hafa hryggð á hryggð ofan. 28Fyrir því læt ég mér enn annara um að senda hann heim, til þess að þér verðið aftur glaðir, er þér sjáið hann, og mér verði hughægra. 29Takið því á móti honum í nafni Drottins með öllum fögnuði, og hafið slíka menn í heiðri. 30Hann var að vinna fyrir Krist. Þess vegna var hann að dauða kominn. Hann lagði líf sitt í hættu til þess að bæta upp það, sem brast á hjálp yðar mér til handa.
Copyright information for
Icelandic