‏ Nahum 1

1Spádómur um Níníve. Bókin um vitrun Nahúms Elkósíta. 2Drottinn er vandlætissamur Guð og hefnari. Drottinn er hefnari og fullur gremi. Drottinn hefnir sín á mótstöðumönnum sínum og er langrækinn við óvini sína. 3Drottinn er seinn til reiði og mikill að krafti, en óhegnt lætur hann ekki. Drottinn brunar áfram í fellibyljum og stormviðri, og skýin eru rykið undir fótum hans. 4Hann hastar á sjóinn og þurrkar hann upp, og hann lætur öll fljót þorna. Þá fölnar Basan og Karmel, þá fölnar jurtagróðurinn á Líbanon. 5Fjöllin skjálfa fyrir honum, og hálsarnir renna sundur. Jörðin gengur skykkjum fyrir honum, heimskringlan og allir sem á henni búa. 6Hver fær staðist gremi hans og hver fær afborið hans brennandi reiði? Heift hans úthellist eins og eldur og björgin bresta sundur fyrir honum. 7Drottinn er góður, athvarf á degi neyðarinnar, og hann þekkir þá sem treysta honum. 8En með yfirgeisandi vatnsflóði mun hann gjörsamlega afmá Níníve, og myrkur mun ofsækja óvini hans. 9Hvað bruggið þér gegn Drottni? Hann eyðir svo, að af tekur _ þrengingin mun ekki koma tvisvar. 10Þótt þeir væru samflæktir sem þyrnar og votir sem vín þeirra, þá munu þeir upp brenndir verða sem skraufþurrir hálmleggir. 11Frá þér, Níníve, út gekk sá, er hafði illt í huga gegn Drottni, sá er hafði skaðsemdar áform með höndum. 12Svo segir Drottinn: Þótt þeir komi allir með tölu og afar fjölmennir, þá skulu þeir allt að einu afmáðir verða og farast. Hafi ég auðmýkt þig, Júda, þá mun ég ekki auðmýkja þig framar. 13Og nú vil ég brjóta ok hans af þér og slíta bönd þín. 14En um þig, Níníve, mun Drottinn skipa svo fyrir: Ekkert afkvæmi skal framar koma út af nafni þínu. Ég vil eyða skurðmyndunum og steyptu líkneskjunum úr hofi guðs þíns, ég vil búa þér gröf, því að þú ert léttvæg fundin.
Copyright information for Icelandic