‏ Luke 8

1Eftir þetta fór hann um, borg úr borg og þorp úr þorpi, prédikaði og flutti fagnaðarerindið um Guðs ríki. Með honum voru þeir tólf 2og konur nokkrar, er læknaðar höfðu verið af illum öndum og sjúkdómum. Það voru þær María, kölluð Magdalena, er sjö illir andar höfðu farið úr, 3Jóhanna, kona Kúsa, ráðsmanns Heródesar, Súsanna og margar aðrar. Þær hjálpuðu þeim með fjármunum sínum. 4Nú var mikill fjöldi saman kominn, og menn komu til hans úr hverri borg af annarri. Þá sagði hann þessa dæmisögu: 5,,Sáðmaður gekk út að sá sæði sínu. Og þá er hann sáði, féll sumt hjá götunni og varð fótum troðið, og fuglar himins átu það upp. 6Sumt féll á klöpp. Það spratt, en skrælnaði, af því að það hafði ekki raka. 7Og sumt féll meðal þyrna, og þyrnarnir spruttu einnig og kæfðu það. 8En sumt féll í góða jörð, óx upp og bar hundraðfaldan ávöxt.`` Að svo mæltu hrópaði hann: ,,Hver sem eyru hefur að heyra, hann heyri.`` 9En lærisveinar hans spurðu hann, hvað þessi dæmisaga þýddi. 10Hann sagði: ,,Yður er gefið að þekkja leynda dóma Guðs ríkis, hinir fá þá í dæmisögum, ,að sjáandi sjái þeir ekki og heyrandi skilji þeir ekki.` 11En dæmisagan þýðir þetta: Sæðið er Guðs orð. 12Það er féll hjá götunni, merkir þá, sem heyra orðið, en síðan kemur djöfullinn og tekur það burt úr hjarta þeirra, til þess að þeir trúi ekki og verði hólpnir. 13Það er féll á klöppina, merkir þá, sem taka orðinu með fögnuði, er þeir heyra það, en hafa enga rótfestu. Þeir trúa um stund, en falla frá á reynslutíma. 14Það er féll meðal þyrna, merkir þá er heyra, en kafna síðan undir áhyggjum, auðæfum og nautnum lífsins og bera ekki þroskaðan ávöxt. 15En það er féll í góða jörð, merkir þá sem heyra orðið og geyma það í göfugu, góðu hjarta og bera ávöxt með stöðuglyndi. 16Enginn kveikir ljós og byrgir það með keri eða setur undir bekk, heldur láta menn það á ljósastiku, að þeir, sem inn koma, sjái ljósið. 17Því að ekkert er hulið, sem eigi verður opinbert, né leynt, að eigi verði það kunnugt og komi í ljós. 18Gætið því að, hvernig þér heyrið. Því að þeim sem hefur, mun gefið verða, og frá þeim sem eigi hefur, mun tekið verða jafnvel það, sem hann ætlar sig hafa.`` 19Móðir hans og bræður komu til hans, en gátu ekki náð fundi hans vegna mannfjöldans. 20Var honum sagt: ,,Móðir þín og bræður standa úti og vilja finna þig.`` 21En hann svaraði þeim: ,,Móðir mín og bræður eru þeir, sem heyra Guðs orð og breyta eftir því.`` 22Dag einn fór hann út í bát og lærisveinar hans. Hann sagði við þá: ,,Förum yfir um vatnið.`` Og þeir létu frá landi. 23En sem þeir sigldu, sofnaði hann. Þá skall stormhrina á vatnið, svo að nær fyllti bátinn og voru þeir hætt komnir. 24Þeir fóru þá til hans, vöktu hann og sögðu: ,,Meistari, meistari, vér förumst!`` En hann vaknaði og hastaði á vindinn og öldurótið og slotaði þegar og gerði logn. 25Og hann sagði við þá: ,,Hvar er trú yðar?`` En þeir urðu hræddir og undruðust og sögðu hver við annan: ,,Hver er þessi? Hann skipar bæði vindum og vatni og hvort tveggja hlýðir honum.`` 26Þeir tóku land í byggð Gerasena, sem er gegnt Galíleu. 27Er hann sté á land, kom á móti honum maður nokkur úr borginni, sem haldinn var illum öndum. Langan tíma hafði hann ekki farið í föt né dvalist í húsi, heldur í gröfunum. 28Þegar hann sá Jesú, æpti hann, féll fram fyrir honum og hrópaði hárri röddu: ,,Hvað vilt þú mér, Jesús, sonur Guðs hins hæsta? Ég bið þig, kvel þú mig eigi!`` 29Því að hann hafði boðið óhreina andanum að fara út af manninum. En margsinnis hafði hann gripið hann, og höfðu menn fjötrað hann á höndum og fótum og haft í gæslu, en hann hafði slitið böndin og illi andinn hrakið hann út í óbyggðir. 30Jesús spurði hann: ,,Hvað heitir þú?`` En hann sagði: ,,Hersing``, því að margir illir andar höfðu farið í hann. 31Og þeir báðu Jesú að skipa sér ekki að fara í undirdjúpið. 32En þar var stór svínahjörð á beit í fjallinu. Þeir báðu hann að leyfa sér að fara í þau, og hann leyfði þeim það. 33Illu andarnir fóru þá úr manninum og í svínin, og hjörðin ruddist fram af hamrinum í vatnið og drukknaði. 34En er hirðarnir sáu, hvað orðið var, flýðu þeir og sögðu tíðindin í borginni og sveitinni. 35Menn fóru þá að sjá, hvað gjörst hafði, komu til Jesú og fundu manninn, sem illu andarnir höfðu farið úr, sitja klæddan og heilvita við fætur Jesú. Og þeir urðu hræddir. 36Sjónarvottar sögðu þeim frá, hvernig sá, sem haldinn var illum öndum, hafði orðið heill. 37Allt fólk í héruðum Gerasena bað hann þá fara burt frá sér, því menn voru slegnir miklum ótta. Og hann sté í bátinn og sneri aftur. 38Maðurinn, sem illu andarnir höfðu farið úr, bað hann að mega vera með honum, en Jesús lét hann fara og mælti: 39,,Far aftur heim til þín, og seg þú frá, hve mikið Guð hefur fyrir þig gjört.`` Hann fór og kunngjörði um alla borgina, hve mikið Jesús hafði fyrir hann gjört. 40En er Jesús kom aftur, fagnaði mannfjöldinn honum, því að allir væntu hans. 41Þá kom þar maður, Jaírus að nafni, forstöðumaður samkundunnar. Hann féll til fóta Jesú og bað hann koma heim til sín. 42Því hann átti einkadóttur, um tólf ára að aldri, og hún lá fyrir dauðanum. Þegar Jesús var á leiðinni, þrengdi mannfjöldinn að honum. 43Þar var kona, sem hafði haft blóðlát í tólf ár. Hún hafði leitað lækna og varið til aleigu sinni, en enginn getað læknað hana. 44Hún kom að baki honum og snart fald klæða hans, og jafnskjótt stöðvaðist blóðlát hennar. 45Jesús sagði: ,,Hver var það, sem snart mig?`` En er allir synjuðu fyrir það, sagði Pétur: ,,Meistari, mannfjöldinn treðst að þér og þrýstir á.`` 46En Jesús sagði: ,,Einhver snart mig, því að ég fann, að kraftur fór út frá mér.`` 47En er konan sá, að hún fékk eigi dulist, kom hún skjálfandi, féll til fóta honum og skýrði frá því í áheyrn alls lýðsins, hvers vegna hún snart hann, og hvernig hún hafði jafnskjótt læknast. 48Hann sagði þá við hana: ,,Dóttir, trú þín hefur bjargað þér. Far þú í friði.`` 49Meðan hann var að segja þetta, kemur maður heiman frá samkundustjóranum og segir: ,,Dóttir þín er látin, ómaka þú ekki meistarann lengur.`` 50En er Jesús heyrði þetta, sagði hann við hann: ,,Óttast ekki, trú þú aðeins, og mun hún heil verða.`` 51Þegar hann kom að húsinu, leyfði hann engum að fara inn með sér nema Pétri, Jóhannesi og Jakobi og föður stúlkunnar og móður. 52Og allir grétu og syrgðu hana. Hann sagði: ,,Grátið ekki, hún er ekki dáin, hún sefur.`` 53En þeir hlógu að honum, þar eð þeir vissu að hún var dáin. 54Hann tók þá hönd hennar og kallaði: ,,Stúlka, rís upp!`` 55Og andi hennar kom aftur, og hún reis þegar upp, en hann bauð að gefa henni að eta. 56Foreldrar hennar urðu frá sér numdir, en hann bauð þeim að segja engum frá þessum atburði.
Copyright information for Icelandic