‏ Luke 14

1Hvíldardag nokkurn kom Jesús í hús eins af höfðingjum farísea til máltíðar, og höfðu þeir gætur á honum. 2Þá var þar frammi fyrir honum maður einn vatnssjúkur. 3Jesús tók þá til máls og sagði við lögvitringana og faríseana: ,,Er leyfilegt að lækna á hvíldardegi eða ekki?`` 4Þeir þögðu við. En hann tók á honum, læknaði hann og lét hann fara. 5Og Jesús mælti við þá: ,,Nú á einhver yðar asna eða naut, sem fellur í brunn, mun hann ekki óðara draga það upp, þótt hvíldardagur sé?`` 6Þeir gátu engu svarað þessu. 7Jesús gaf því gætur, hvernig þeir, sem boðnir voru, völdu sér hefðarsætin, tók dæmi og sagði við þá: 8,,Þegar einhver býður þér til brúðkaups, þá set þig ekki í hefðarsæti. Svo getur farið, að manni þér fremri að virðingu sé boðið, 9og sá komi, er ykkur bauð, og segi við þig: ,Þoka fyrir manni þessum.` Þá verður þú með kinnroða að taka ysta sæti. 10Far þú heldur, er þér er boðið, og set þig í ysta sæti, svo að sá sem bauð þér segi við þig, þegar hann kemur: ,Vinur, flyt þig hærra upp!` Mun þér þá virðing veitast frammi fyrir öllum, er sitja til borðs með þér. 11Því að hver sem upp hefur sjálfan sig, mun auðmýktur verða, en sá sem auðmýkir sjálfan sig, mun upp hafinn verða.`` 12Þá sagði hann við gestgjafa sinn: ,,Þegar þú heldur miðdegisverð eða kvöldverð, bjóð þá hvorki vinum þínum né bræðrum, ættingjum né ríkum nágrönnum. Þeir bjóða þér aftur, og þú færð endurgjald. 13Þegar þú gjörir veislu, þá bjóð þú fátækum og örkumla, höltum og blindum, 14og munt þú sæll verða, því þeir geta ekki endurgoldið þér, en þú færð það endurgoldið í upprisu réttlátra.`` 15Þegar einn þeirra, er að borði sátu, heyrði þetta, sagði hann við Jesú: ,,Sæll er sá, sem neytir brauðs í Guðs ríki.`` 16Jesús sagði við hann: ,,Maður nokkur gjörði mikla kvöldmáltíð og bauð mörgum. 17Er stundin kom, að veislan skyldi vera, sendi hann þjón sinn að segja þeim, er boðnir voru: ,Komið, nú er allt tilbúið.` 18En þeir tóku allir að afsaka sig einum munni. Hinn fyrsti sagði við hann: ,Ég hef keypt akur og verð að fara og líta á hann. Ég bið þig, haf mig afsakaðan.` 19Annar sagði: ,Ég hef keypt fimm tvenndir akneyta og er á förum að reyna þau. Ég bið þig, haf mig afsakaðan.` 20Og enn annar sagði: ,Konu hef ég eignast, ekki get ég komið.` 21Þjónninn kom og tjáði herra sínum þetta. Þá reiddist húsbóndinn og sagði við þjón sinn: ,Far þú fljótt út á stræti og götur borgarinnar, og leið inn hingað fátæka, örkumla, blinda og halta.` 22Og þjónninn sagði: ,Herra, það er gjört, sem þú bauðst, og enn er rúm.` 23Þá sagði húsbóndinn við þjóninn: ,Far þú út um brautir og gerði og þrýstu þeim að koma inn, svo að hús mitt fyllist. 24Því ég segi yður, að enginn þeirra manna, er boðnir voru, mun smakka kvöldmáltíð mína.``` 25Mikill fjöldi fólks var honum samferða. Hann sneri sér við og sagði við þá: 26,,Ef einhver kemur til mín og hatar ekki föður sinn og móður, konu og börn, bræður og systur og enda sitt eigið líf, sá getur ekki verið lærisveinn minn. 27Hver sem ber ekki sinn kross og fylgir mér, getur ekki verið lærisveinn minn. 28Hver yðar sest ekki fyrst við, ef hann ætlar að reisa turn, og reiknar kostnaðinn, hvort hann eigi nóg til að ljúka verkinu? 29Ella má svo fara, að hann leggi undirstöðu, en fái ekki við lokið, og allir, sem það sjá, taki að spotta hann 30og segja: ,Þessi maður fór að byggja, en gat ekki lokið.` 31Eða hvaða konungur fer með hernaði gegn öðrum konungi og sest ekki fyrst við og ráðgast um, hvort honum sé fært að mæta með tíu þúsundum þeim er fer á móti honum með tuttugu þúsundir? 32Sé svo ekki, gerir hann menn á fund hans, meðan hann er enn langt undan, og spyr um friðarkosti. 33Þannig getur enginn yðar verið lærisveinn minn, nema hann segi skilið við allt sem hann á. 34Saltið er gott, en ef saltið sjálft dofnar, með hverju á þá að krydda það? 35Hvorki er það hæft á tún né taðhaug. Því er fleygt. Hver sem eyru hefur að heyra, hann heyri.``
Copyright information for Icelandic