Leviticus 22
1Drottinn talaði við Móse og sagði: 2,,Seg þú Aroni og sonum hans, að þeir skuli halda sér frá helgigjöfum Ísraelsmanna, þeim er þeir helga mér, svo að þeir vanhelgi eigi heilagt nafn mitt. Ég er Drottinn. 3Seg við þá: Hver sá af niðjum yðar, nú og í komandi kynslóðum, er kemur nærri helgigjöfum þeim, er Ísraelsmenn helga Drottni, meðan hann er óhreinn, skal upprættur verða frá augliti mínu. Ég er Drottinn. 4Eigi skal neinn sá af niðjum Arons, sem líkþrár er eða hefir rennsli, eta af helgigjöfunum, uns hann er hreinn. Og sá, er snertir einhvern þann, sem saurgaður er af líki, eða mann sem hefir sáðlát, 5eða sá, sem snert hefir eitthvert skriðkvikindi og saurgast af því, eða mann og saurgast af honum, hverrar tegundar sem óhreinleiki hans er, _ 6sá er snert hefir slíkt, skal vera óhreinn til kvelds. Og eigi skal hann eta af helgigjöfunum nema hann laugi líkama sinn í vatni. 7En jafnskjótt og sól er setst, er hann hreinn, og síðan eti hann af helgigjöfunum, því að það er matur hans. 8Sjálfdauða skepnu eða dýrrifna skal hann eigi eta, svo að hann saurgist af. Ég er Drottinn. 9Þeir skulu því varðveita boðorð mín, svo að þeir baki sér eigi synd fyrir slíkt og deyi vegna þess, fyrir því að þeir vanhelguðu það. Ég er Drottinn, sá er helgar þá. 10Enginn sá, er eigi heyrir skylduliði prests, skal eta helgan dóm. Hvorki hjábýlingur prests né kaupamaður skal eta helgan dóm. 11En kaupi prestur þræl verði, þá skal hann eta af því, svo og sá er fæddur er í húsi hans. Þeir skulu eta af mat hans. 12Eigi skal prestsdóttir, sé hún leikmanni gefin, eta af hinum heilögu fórnargjöfum. 13En sé dóttir prests ekkja eða kona brott rekin og eigi ekki barna og sé horfin aftur í hús föður síns, eins og í æsku hennar, skal hún eta af mat föður síns. En enginn sá, er eigi heyrir skylduliði prests, skal eta af honum. 14Nú etur einhver af vangá helgan dóm, og skal hann þá færa presti hinn helga dóm og greiða fimmtung umfram. 15Þeir skulu eigi vanhelga helgigjafir Ísraelsmanna, það er þeir færa Drottni í lyftifórn, 16svo að þeir baki þeim eigi sekt með misgjörð sinni, er þeir eta helgigjafir þeirra, því að ég er Drottinn, sá er helgar þá.`` 17Drottinn talaði við Móse og sagði: 18,,Mæl þú til Arons og sona hans og allra Ísraelsmanna og seg við þá: Þá er einhver af húsi Ísraels eða útlendum mönnum í Ísrael ber fram fórnargjöf sína, hvort sem það er einhver heitfórn þeirra eða sjálfviljafórn, sem þeir færa Drottni að brennifórn, 19þá skuluð þér bera hana svo fram, að hún afli yður velþóknunar: gallalausa, karlkyns, af nautum, sauðum eða geitum. 20Eigi skuluð þér bera fram neitt það, er lýti hefir á sér, því að það mun eigi afla yður velþóknunar. 21Nú vill einhver fórna Drottni heillafórn af nautum eða sauðfénaði, hvort heldur er til að efna heit sitt eða í sjálfviljafórn, þá skal það vera gallalaust, til þess að það afli honum velþóknunar. Ekkert lýti sé á því. 22Það sem blint er eða beinbrotið eða sært eða með kýlum eða kláða eða útbrotum, það skuluð þér eigi færa Drottni, og eigi skuluð þér bera Drottni eldfórn af því á altarið. 23En nautkind eða sauðkind, sem hefir lim ofskapaðan eða vanskapaðan, mátt þú fórna í sjálfviljafórn, en sem heitfórn mun hún eigi verða þóknanleg. 24Það sem vanað er með kramningu, marningu, sliti eða skurði, skuluð þér eigi færa Drottni, og þér skuluð eigi slíkt gjöra í landi yðar. 25Né heldur skuluð þér fá neitt af þessu hjá útlendum manni og bera það fram svo sem mat Guðs yðar, því að skemmd er á því. Lýti er á því, það mun eigi afla yður velþóknunar.`` 26Drottinn talaði við Móse og sagði: 27,,Þá er kálfur, lamb eða kið fæðist, skal það ganga sjö daga undir móðurinni, en átta daga gamalt og þaðan af eldra mun það verða þóknanlega meðtekið sem eldfórnargjöf Drottni til handa. 28Þér skuluð eigi slátra kú eða á sama daginn og afkvæmi hennar. 29Er þér fórnið Drottni þakkarfórn, þá fórnið henni svo, að hún afli yður velþóknunar. 30Skal hún etin samdægurs, eigi skuluð þér leifa neinu af henni til morguns. Ég er Drottinn. 31Varðveitið því skipanir mínar og haldið þær. Ég er Drottinn. 32Og eigi skuluð þér vanhelga heilagt nafn mitt, svo að ég helgist meðal Ísraelsmanna. Ég er Drottinn, sá er yður helgar, 33sá er leiddi yður út af Egyptalandi til þess að vera Guð yðar. Ég er Drottinn.``
Copyright information for
Icelandic