‏ Joshua 13

1Þegar Jósúa var orðinn gamall og hniginn að aldri, sagði Drottinn við hann: ,,Þú ert orðinn gamall og hniginn að aldri, en mjög mikið af landinu er enn óunnið. 2Þetta er landið, sem enn er eftir: Öll héruð Filista og allt land Gesúra; 3frá Síhór, sem rennur fram með Egyptalandi að austanverðu, til landamæra Ekron í norðri _ það telst með landi Kanaaníta _, fimm höfðingjar Filistanna í Gasa, Asdód, Askalon, Gat og Ekron, svo og Avítar í suðri, 4allt land Kanaaníta og Meara, sem heyrir Sídoningum, allt til Afek, til landamæra Amoríta, 5og land Giblíta og allt Líbanon í austri, frá Baal Gað undir Hermonfjalli allt þangað, er leið liggur til Hamat. 6Allir fjallabúarnir frá Líbanon til Misrefót Majím, allir Sídoningar, _ ég mun stökkva þeim burt undan Ísraelsmönnum. En legg þú á hluti og skipt því meðal Ísraels til eignar, eins og ég hefi boðið þér. 7Skipt þú nú landi þessu til eignar níu ættkvíslunum og hálfri ættkvísl Manasse.`` 8Með hálfri ættkvísl Manasse hafa Rúbenítar og Gaðítar fengið sinn eignarhluta, er Móse gaf þeim hinumegin Jórdanar, austanmegin. Móse, þjónn Drottins, gaf þeim hann: 9landið frá Aróer, sem liggur á bakka Arnonár, og borginni, sem liggur í dalnum miðjum, og allt sléttlendið frá Medeba til Díbon, 10svo og allar borgir, er átti Síhon, Amorítakonungur, er sat í Hesbon, allt til landamæra Ammóníta. 11Enn fremur Gíleað og land Gesúra og Maakatíta, Hermonfjöll öll og allt Basan til Salka, 12allt konungsríki Ógs í Basan, sem sat í Astarót og Edreí. Hann var einn eftir af Refaítum; en Móse vann sigur á þeim og stökkti þeim burt. 13Aftur á móti stökktu Ísraelsmenn Gesúrum og Maakatítum ekki burt, heldur búa Gesúrar og Maakatítar meðal Ísraels allt fram á þennan dag. 14En ættkvísl Leví gaf hann ekkert óðal. Eldfórnir Drottins, Ísraels Guðs, eru óðal hans, eins og hann hét honum. 15Móse fékk kynkvíslum Rúbens sona land eftir ættum þeirra. 16Fengu þeir land frá Aróer, sem liggur á bakka Arnonár, og frá borginni, sem liggur í dalnum miðjum, og allt sléttlendið hjá Medeba, 17Hesbon og allar borgirnar þar umhverfis, sem liggja á sléttlendinu, Díbon, Bamót Baal, Bet-Baal-Meon, 18Jahsa, Kedemót, Mefaat, 19Kirjataím, Síbma, Seret Sahar á fellinu í dalnum, 20og Bet Peór, Pisgahlíðar og Bet Jesímót, 21enn fremur allar borgir á sléttlendinu og allt konungsríki Síhons, Amorítakonungs, sem sat í Hesbon og Móse vann sigur á ásamt höfðingjum Midíaníta: Eví, Rekem, Súr, Húr og Reba, jörlum Síhons, sem bjuggu í landinu. 22Ísraelsmenn drápu og spásagnamanninn Bíleam Beórsson með sverði, auk annarra, er þeir felldu. 23Og vesturtakmörkum Rúbens sona réð Jórdan alla leið. Þetta er óðal Rúbens sona eftir ættum þeirra, borgirnar og þorpin, sem að liggja. 24Móse fékk kynkvísl Gaðs, Gaðs sonum, land eftir ættum þeirra. 25Fengu þeir land sem hér segir: Jaser og allar borgirnar í Gíleað og hálft land Ammóníta, allt til Aróer, sem liggur fyrir austan Rabba, 26og frá Hesbon til Ramat Mispe og Betóním, og frá Mahanaím til Lídebír landamæra. 27Enn fremur í dalnum: Bet Haram, Bet Nimra, Súkkót og Safón, leifarnar af konungsríki Síhons, konungs í Hesbon, og Jórdan á mörkum allt að suðurenda Genesaretvatns, austanmegin Jórdanar. 28Þetta er óðal Gaðs sona eftir ættum þeirra, borgirnar og þorpin, er að liggja. 29Móse fékk hálfri ættkvísl Manasse land. Fékk hálf kynkvísl Manasse sona land eftir ættum sínum sem hér segir. 30Land þeirra náði frá Mahanaím yfir allt Basan, allt konungsríki Ógs, konungs í Basan, og öll Jaírs-þorp, sem liggja í Basan, sextíu borgir. 31Enn fremur yfir hálft Gíleað og Astarót og Edreí, höfuðstaði konungsríkis Ógs í Basan. Þetta fengu Makírs synir, Manassesonar, helmingurinn af Makírs sonum eftir ættum þeirra. 32Þetta voru lönd þau, er Móse úthlutaði á Móabsvöllum hinumegin Jórdanar gegnt Jeríkó, austanmegin. 33En ættkvísl Leví gaf Móse ekkert óðal. Drottinn, Ísraels Guð, er óðal þeirra, eins og hann hefir heitið þeim.
Copyright information for Icelandic