‏ Job 2

1Nú bar svo til einn dag, að synir Guðs komu til þess að ganga fyrir Drottin, og kom Satan og meðal þeirra. 2Mælti þá Drottinn til Satans: ,,Hvaðan kemur þú?`` Og Satan svaraði Drottni og sagði: ,,Ég hefi verið að reika um jörðina og arka fram og aftur um hana.`` 3Og Drottinn mælti til Satans: ,,Veittir þú athygli þjóni mínum Job? því að enginn er hans líki á jörðu, maður ráðvandur og réttlátur, guðhræddur og grandvar. Og enn þá er hann staðfastur í ráðvendni sinni, og þó hefir þú egnt mig gegn honum til að vinna honum tjón án saka.`` 4Og Satan svaraði Drottni og sagði: ,,Nær er skinnið en skyrtan, og fyrir líf sitt gefur maðurinn allt sem hann á. 5En rétt þú út hönd þína og snert þú bein hans og hold, og þá mun hann formæla þér upp í opið geðið.`` 6Þá mælti Drottinn til Satans: ,,Sjá, veri hann á þínu valdi, en þyrma skalt þú lífi hans.`` 7Þá gekk Satan burt frá augliti Drottins og sló Job illkynjuðum kaunum frá hvirfli til ilja. 8Og Job tók sér leirbrot til að skafa sig með, þar sem hann sat í öskunni. 9Þá sagði kona hans við hann: ,,Heldur þú enn fast við ráðvendni þína? Formæltu Guði og farðu að deyja!`` 10En hann sagði við hana: ,,Þú talar svo sem heimskar konur tala. Fyrst vér höfum þegið hið góða af Guði, ættum vér þá ekki einnig að taka hinu vonda?`` Í öllu þessu syndgaði Job ekki með vörum sínum. 11Þegar vinir Jobs þrír fréttu, að öll þessi ógæfa væri yfir hann komin, þá komu þeir hver frá sínum stað, þeir Elífas Temaníti, Bildad Súíti og Sófar Naamíti, og töluðu sig saman um að fara og votta honum samhryggð sína og hugga hann. 12En er þeir hófu upp augu sín álengdar, þekktu þeir hann ekki. Tóku þeir þá að gráta hástöfum, rifu skikkjur sínar og jusu mold yfir höfuð sér hátt í loft upp. 13Og þannig sátu þeir hjá honum á jörðu sjö daga og sjö nætur, og enginn þeirra yrti á hann, því að þeir sáu, hversu mikil kvöl hans var.
Copyright information for Icelandic