Jeremiah 8
1Þá munu menn _ segir Drottinn _ taka bein Júdakonunga og bein Júdahöfðingja og bein prestanna og bein spámannanna og bein Jerúsalembúa úr gröfum þeirra, 2og breiða þau út á móti sólinni og tunglinu og öllum her himinsins, er þeir elskuðu og þjónuðu og eltu og gengu til frétta við og féllu fram fyrir. Þeim verður ekki safnað saman og þau verða ekki grafin, þau skulu verða að áburði á akrinum. 3Og allar leifarnar, þeir er eftir verða af þessari vondu kynslóð á öllum þeim stöðum, þangað sem ég hefi rekið þá, munu heldur kjósa dauða en líf _ segir Drottinn allsherjar. 4Seg því við þá: Svo segir Drottinn: Hvort falla menn og standa ekki upp aftur? Eða hverfa menn burt án þess að koma aftur? 5Hvers vegna hefir þessi lýður horfið burt til ævarandi fráhvarfs? Þeir halda fast við svikin og vilja ekki hverfa aftur. 6Ég tók eftir og heyrði: Þeir tala ósannindi, enginn iðrast illsku sinnar, svo að hann segi: ,,Hvað hefi ég gjört?`` Allir hafa þeir gjörst fráhverfir í rásinni, eins og hestur, sem ryðst áfram í orustu. 7Jafnvel storkurinn í loftinu þekkir sínar ákveðnu tíðir, og turtildúfan og svalan og tranan gefa gætur að tíma endurkomu sinnar, en lýður minn þekkir ekki rétt Drottins. 8Hvernig getið þér sagt: ,,Vér erum vitrir og lögmál Drottins er hjá oss``? Víst er svo, en lygapenni fræðimannanna hefir gjört það að lygi. 9Hinir vitru verða til skammar, þeir skelfast og verða gripnir, sjá, þeir hafa hafnað orði Drottins, hvaða visku hafa þeir þá? 10Fyrir því mun ég selja konur þeirra öðrum á vald og sigurvegurunum lönd þeirra, því að bæði ungir og gamlir, allir eru þeir fíknir í rangfenginn gróða, bæði spámenn og prestar, allir hafa þeir svik í frammi. 11Þeir hyggjast að lækna áfall þjóðar minnar með hægu móti, segjandi: ,,Heill, heill!`` þar sem engin heill er. 12Þeir munu hljóta að skammast sín fyrir að hafa framið svívirðing! En þeir skammast sín ekki og vita ekki hvað það er að blygðast sín. Fyrir því munu þeir falla meðal þeirra, sem falla. Þegar minn tími kemur að hegna þeim, munu þeir steypast _ segir Drottinn. 13Ég vil safna þeim saman eins og um uppskeru _ segir Drottinn _ en engin vínber eru á vínviðinum og engar fíkjur á fíkjutrénu, og laufið er fölnað. Vil ég því selja þá þeim á vald, er þá munu upp eta. 14Til hvers sitjum vér hér kyrrir? Safnist saman og höldum inn í víggirtu borgirnar og förumst þar, því að Drottinn, Guð vor, lætur oss farast og drykkjar oss með eiturvatni, af því að vér höfum syndgað á móti Drottni. 15Menn vænta hamingju, en ekkert gott kemur, vænta lækningartíma, og sjá, skelfing! 16Frá Dan heyrist frýsið í fákum hans, og af hneggi hesta hans nötrar allt landið, og þeir koma og eta upp landið og það, sem í því er, borgina og íbúa hennar. 17Sjá, ég sendi meðal yðar höggorma, nöðrur, sem særingar vinna ekki á, og þeir skulu bíta yður _ segir Drottinn. 18Ó hvað má hugsvala mér í harminum! Hjartað er sjúkt í mér. 19Heyr, kvein þjóðar minnar hljómar úr fjarlægu landi. Er Drottinn ekki í Síon, eða er konungur hennar ekki í henni? ,,Hví egndu þeir mig til reiði með skurðmyndum sínum, með fánýtum, útlendum goðum?`` 20Uppskeran er liðin, aldinskurðurinn á enda, en vér höfum eigi hlotið hjálp. 21Ég er helsærður af helsári þjóðar minnar, ég geng í sorgarbúningi, skelfing hefir gripið mig. 22Eru þá engin smyrsl í Gíleað, eða er þar enginn læknir? Hví er engin hyldgan komin á sár þjóðar minnar?
Copyright information for
Icelandic