‏ Jeremiah 22

1Svo mælti Drottinn: Gakk þú ofan að höll Júdakonungs og flyt þar þessi orð 2og seg: Heyr orð Drottins, konungur í Júda, þú sem situr í hásæti Davíðs, þú og þjónar þínir og lýður þinn, þeir sem ganga inn um þessi hlið! 3Svo segir Drottinn: Iðkið rétt og réttlæti og frelsið hinn rænda af hendi kúgarans. Undirokið ekki útlendinga, munaðarleysingja og ekkjur, og hafið ekki órétt í frammi, og úthellið ekki saklausu blóði á þessum stað. 4Því ef þér gjörið þetta, munu inn um hlið þessa húss fara konungar, er sitja í hásæti Davíðs sem eftirmenn hans, akandi í vögnum og ríðandi á hestum _ konungurinn sjálfur, þjónar hans og lýður hans. 5En ef þér hlýðið ekki þessum orðum, þá sver ég við sjálfan mig _ segir Drottinn _ að höll þessi skal verða að eyðirúst. 6Svo segir Drottinn um höll Júdakonungs: Þú ert mér sem Gíleað, sem Líbanonstindur. Vissulega vil ég gjöra þig að eyðimörk, eins og óbyggðar borgir, 7og vígja spillvirkja í móti þér, hvern með sín vopn, til þess að þeir höggvi þín ágætu sedrustré og varpi þeim á eldinn. 8Margar þjóðir skulu ganga fram hjá þessari borg og menn segja hver við annan: ,,Hvers vegna hefir Drottinn farið svo með þessa miklu borg?`` 9Og þá munu menn svara: ,,Af því að þeir yfirgáfu sáttmála Drottins, Guðs síns, og féllu fram fyrir öðrum guðum og þjónuðu þeim.`` 10Grátið ekki þann, sem dauður er, og harmið hann ekki. Grátið miklu heldur þann, sem burt er farinn, því að hann mun aldrei koma heim aftur og sjá ættland sitt. 11Því að svo segir Drottinn um Sallúm Jósíason, konung í Júda, sem ríki tók eftir Jósía föður sinn og burt er farinn úr þessum stað: Hann mun aldrei framar koma hingað aftur, 12heldur mun hann deyja á þeim stað, þangað sem þeir hafa flutt hann hertekinn, en þetta land mun hann aldrei framar líta. 13Vei þeim, sem byggir hús sitt með ranglæti og veggsvalir sínar með rangindum, sem lætur náunga sinn vinna fyrir ekki neitt og greiðir honum ekki kaup hans, 14sem segir: ,,Ég vil reisa mér rúmgott hús og loftgóðar svalir!`` og heggur sér glugga, þiljar með sedrusviði og málar fagurrautt! 15Ert þú konungur, þótt þú keppir við aðra með húsagjörð úr sedrusviði? Át ekki faðir þinn og drakk? En hann iðkaði rétt og réttlæti, þá vegnaði honum vel. 16Hann rak réttar hinna aumu og fátæku, þá gekk allt vel. Er slíkt ekki að þekkja mig? _ segir Drottinn. 17En augu þín og hjarta stefna eingöngu að eigin ávinning og að því að úthella saklausu blóði og beita kúgun og undirokun. 18Fyrir því segir Drottinn svo um Jójakím Jósíason, Júdakonung: Menn munu ekki harma hann og segja: ,,Æ, bróðir minn! Æ, systir!`` Menn munu ekki harma hann og segja: ,,Æ, herra! Æ, vegsemd hans!`` 19Hann skal verða jarðaður eins og asni er jarðaður: dreginn burt og varpað langt út fyrir hlið Jerúsalem. 20Stíg þú upp á Líbanon og hljóða! Lát raust þína gjalla í Basan og hljóða þú frá Abarím, því að allir ástmenn þínir eru sundurmolaðir. 21Ég talaði við þig í velgengni þinni, en þú sagðir: ,,Ég vil ekki heyra!`` Þannig var breytni þín frá æsku, að þú hlýddir ekki minni raustu. 22Nú mun stormurinn hirða alla hirða þína, og ástmenn þínir munu herleiddir verða. Já, þá munt þú verða til skammar og smánar vegna allrar vonsku þinnar. 23Þú sem býr á Líbanon og hreiðrar þig í sedrustrjám, hversu munt þú stynja, þegar hríðirnar koma yfir þig, kvalir eins og yfir jóðsjúka konu. 24Svo sannarlega sem ég lifi _ segir Drottinn _ þótt Konja Jójakímsson, konungur í Júda, væri innsiglishringur á hægri hendi minni, þá mundi ég rífa hann þaðan. 25Og ég sel þig í hendur þeirra, sem sitja um líf þitt, og í hendur þeirra, sem þú hræðist, og í hendur Nebúkadresars Babelkonungs og í hendur Kaldea. 26Og ég varpa þér og móður þinni, sem ól þig, burt til annars lands, þar sem þið ekki eruð fædd, og þar skuluð þið deyja, 27en í landið, sem þeir þrá að komast til aftur, þangað skulu þeir aldrei aftur komast. 28Er þá þessi Konja fyrirlitlegt ílát, sem ekki er til annars en að brjóta sundur, eða ker, sem engum manni geðjast að? Hví var honum og niðjum hans þá kastað burt og varpað til lands, sem þeir þekktu ekki? 29Ó land, land, land, heyr orð Drottins! 30Svo segir Drottinn: Skrásetjið þennan mann barnlausan, mann, sem ekki mun verða lángefinn um dagana, því að engum af niðjum hans mun auðnast að sitja í hásæti Davíðs og ríkja framar yfir Júda.
Copyright information for Icelandic