Isaiah 65
1Ég var fús að veita þeim áheyrn, sem eigi spurðu eftir mér, ég gaf þeim kost á að finna mig, sem eigi leituðu mín. Ég sagði: ,,Hér er ég, hér er ég,`` við þá þjóð, er eigi ákallaði nafn mitt. 2Ég hefi rétt út hendur mínar allan daginn í móti þrjóskum lýð, í móti þeim, sem ganga á illum vegum, eftir eigin hugþótta sínum, 3í móti fólki, sem reitir mig stöðuglega til reiði upp í opin augun, sem fórnar í lundunum og brennir reykelsi á tigulsteinunum, 4sem lætur fyrirberast í gröfunum og er um nætur í hellunum, etur svínakjöt og hefir viðbjóðslega súpu í ílátum sínum, 5sem segir: ,,Far þú burt, kom ekki nærri mér, ég er þér heilagur!`` _ Slíkir menn eru reykur í nösum mér, eldur, sem brennur liðlangan daginn. 6Sjá, það stendur skrifað frammi fyrir mér: Ég mun ekki þagna fyrr en ég hefi goldið, já, ég mun gjalda þeim í skaut, 7bæði fyrir misgjörðir þeirra og fyrir misgjörðir feðra þeirra _ segir Drottinn. Þeir brenndu reykelsi á fjöllunum og smánuðu mig á hæðunum! Ég vil mæla þeim í skaut laun þeirra. 8Svo segir Drottinn: Eins og menn segja, þegar lögur finnst í vínberi: ,,Ónýt það eigi, því að blessun er í því!`` eins vil ég gjöra fyrir sakir þjóna minna, svo að ég tortími þeim ekki öllum. 9Ég vil láta afsprengi æxlast út af Jakob og út af Júda erfingja að fjöllum mínum. Mínir útvöldu skulu erfa þau og þjónar mínir búa þar. 10Saron skal verða að beitilandi fyrir hjarðir og Akordalur að nautastöðli fyrir þá af þjóð minni, sem leita mín. 11En þér, sem yfirgefið Drottin, sem gleymið mínu heilaga fjalli, sem setjið borð fyrir heilladísina og hellið á kryddvíni fyrir örlaganornina, 12yður ætla ég undir sverðið, og allir skuluð þér leggjast niður til slátrunar, af því að þér gegnduð ekki, þegar ég kallaði, og heyrðuð ekki, þegar ég talaði, heldur aðhöfðust það, sem illt var í mínum augum, og höfðuð mætur á því, sem mér mislíkaði. 13Fyrir því segir hinn alvaldi Drottinn svo: Sjá, þjónar mínir munu eta, en yður mun hungra, sjá, þjónar mínir munu drekka, en yður mun þyrsta, sjá, þjónar mínir munu gleðjast, en þér munuð glúpna, 14sjá, þjónar mínir munu fagna af hjartans gleði, en þér munuð kveina af hjartasorg og æpa af hugarkvöl. 15Og þér munuð leifa mínum útvöldu nafn yðar sem formæling, en hinn alvaldi Drottinn mun deyða yður. En sína þjóna mun hann nefna öðru nafni. 16Hver sá er óskar sér blessunar í landinu, hann óski sér blessunar í nafni hins trúfasta Guðs, og hver sem eið vinnur í landinu, hann vinni eið við hinn trúfasta Guð, af því að hinar fyrri þrautir eru þá gleymdar og af því að þær eru huldar fyrir augum mínum. 17Sjá, ég skapa nýjan himin og nýja jörð, og hins fyrra skal ekki minnst verða, og það skal engum í hug koma. 18Gleðjist og fagnið ævinlega yfir því, sem ég skapa, því sjá, ég gjöri Jerúsalem að fögnuði og fólkið í henni að gleði. 19Ég vil fagna yfir Jerúsalem og gleðjast yfir fólki mínu, og eigi skal framar heyrast þar gráthljóð eða kveinstafir. 20Eigi skal þar framar vera nokkurt ungbarn, er aðeins lifi fáa daga, né nokkurt gamalmenni, sem ekki nái fullum aldri, því að sá er þar ungur maður, sem deyr tíræður, og sá sem ekki nær tíræðisaldri skal álítast einskis verður. 21Þeir munu reisa hús og búa í þeim, og þeir munu planta víngarða og eta ávöxtu þeirra. 22Eigi munu þeir reisa og aðrir í búa, eigi munu þeir planta og aðrir eta, því að aldur fólks míns mun vera sem aldur trjánna, og mínir útvöldu skulu sjálfir njóta handaverka sinna. 23Eigi munu þeir erfiða til ónýtis og eigi börn geta til skammlífis, því að þeir eru kynslóð manna, er Drottinn hefir blessað, og niðjar þeirra verða hjá þeim. 24Áður en þeir kalla, mun ég svara, og áður en þeir hafa orðinu sleppt, mun ég bænheyra. 25Úlfur og lamb munu vera saman á beit, og ljónið mun hey eta sem naut, en moldin skal vera fæða höggormsins. Hvergi á mínu heilaga fjalli munu menn illt fremja eða skaða gjöra _ segir Drottinn.
Copyright information for
Icelandic