Hosea 4
1Heyrið orð Drottins, þér Ísraelsmenn! Því að Drottinn hefir mál að kæra gegn íbúum landsins, því að í landinu er engin trúfesti, né kærleikur, né þekking á Guði. 2Þeir sverja og ljúga, myrða og stela og hafa fram hjá. Þeir brjótast inn í hús, og hvert mannvígið tekur við af öðru. 3Fyrir því drúpir landið, og allt visnar sem í því er, jafnvel dýr merkurinnar og fuglar himinsins, og enda fiskarnir í sjónum eru hrifnir burt. 4Þó ávíti enginn og álasi enginn. En á yður deili ég, þér prestar. 5Þér skuluð steypast á degi, og jafnvel spámennirnir skulu steypast með yður á nóttu, og ég vil afmá móður yðar, Ísrael. 6Lýður minn verður afmáður, af því að hann hefir enga þekking. Af því að þér hafið hafnað þekkingunni, þá vil ég hafna yður, svo að þér séuð ekki prestar fyrir mig, og með því að þér hafið gleymt lögmáli Guðs yðar, þá vil ég og gleyma börnum yðar. 7Því voldugri sem þeir urðu, því meir syndguðu þeir gegn mér. Vegsemd sinni skipta þeir fyrir smán. 8Þeir lifa af synd lýðs míns, og þá langar í misgjörð þeirra. 9En fyrir lýðnum skal fara eins og fyrir prestunum: Ég skal hegna honum fyrir athæfi hans og gjalda honum fyrir verk hans. 10Þeir skulu eta, en þó ekki saddir verða, þeir skulu hórast, en engan unað af því hafa, því að þeir hafa yfirgefið Drottin. 11Hór, vín og vínberjalögur tekur vitið burt. 12Lýður minn gengur til frétta við trédrumb sinn, og stafsproti hans veitir honum andsvör. Því að hórdómsandi hefir leitt þá afvega, svo að þeir drýgja hór, ótrúir Guði sínum. 13Efst uppi á fjöllunum fórna þeir sláturfórnum, og á fórnarhæðunum færa þeir reykelsisfórnir, undir eikum, öspum og terebintum, því að skuggi þeirra er ununarfullur. Fyrir því drýgja dætur yðar hór og fyrir því hafa yðar ungu konur fram hjá. 14Ég vil ekki hegna dætrum yðar fyrir það að þær drýgja hór, né yðar ungu konum fyrir það að þær hafa fram hjá, því að þeir ganga sjálfir afsíðis með portkonum og fórna sláturfórnum með hofskækjum, og fávitur lýðurinn steypir sér í glötun. 15Þótt þú, Ísrael, drýgir hór, þá láti Júda sér það ekki á verða. Farið eigi til Gilgal og gangið ekki upp til Betaven og sverjið ekki: ,,Svo sannarlega sem Drottinn lifir.`` 16Ísrael er orðinn baldinn, eins og baldin kýr. Á Drottinn nú að halda þeim til haga eins og lömbum á víðu haglendi? 17Efraím er orðinn skurðgoða félagi. Lát hann eiga sig. 18Víndrykkja þeirra hefir lent í spilling. Þeir drýgja hór, þeir elska svívirðinguna meir en hann, sem er tign þeirra. 19Vindbylur vefur þá innan í vængi sína, svo að þeir verði til skammar vegna altara sinna.
Copyright information for
Icelandic