‏ Genesis 8

1Þá minntist Guð Nóa og allra dýranna og alls fénaðarins, sem með honum var í örkinni, og Guð lét vind blása yfir jörðina, svo að vatnið sjatnaði. 2Og uppsprettur undirdjúpsins luktust aftur og flóðgáttir himinsins, og steypiregninu úr loftinu linnti. 3Og vatnið rénaði meir og meir á jörðinni og þvarr eftir hundrað og fimmtíu daga. 4Og örkin nam staðar í sjöunda mánuðinum, á seytjánda degi mánaðarins, á Araratsfjöllunum. 5Og vatnið var að réna allt til hins tíunda mánaðar. Í tíunda mánuðinum, á fyrsta degi mánaðarins, sáust fjallatindarnir. 6Eftir fjörutíu daga lauk Nói upp glugga arkarinnar, sem hann hafði gjört, 7og lét út hrafn. Hann flaug fram og aftur, þangað til vatnið þornaði á jörðinni. 8Þá sendi hann út frá sér dúfu til að vita, hvort vatnið væri þorrið á jörðinni. 9En dúfan fann ekki hvíldarstað fæti sínum og hvarf til hans aftur í örkina, því að vatn var enn yfir allri jörðinni. Og hann rétti út hönd sína og tók hana og fór með hana inn til sín í örkina. 10Og hann beið enn aðra sjö daga og sendi svo dúfuna aftur úr örkinni. 11Þá kom dúfan til hans aftur undir kveld og var þá með grænt olíuviðarblað í nefinu. Þá sá Nói, að vatnið var þorrið á jörðinni. 12Og enn beið hann aðra sjö daga og lét þá dúfuna út, en hún hvarf ekki framar til hans aftur. 13Og á sexhundraðasta og fyrsta ári, í fyrsta mánuðinum, á fyrsta degi mánaðarins, var vatnið þornað á jörðinni. Og Nói tók þakið af örkinni og litaðist um, og var þá yfirborð jarðarinnar orðið þurrt. 14Í öðrum mánuðinum, á tuttugasta og sjöunda degi mánaðarins, var jörðin þurr. 15Þá talaði Guð við Nóa og mælti: 16,,Gakk þú úr örkinni, þú og kona þín og synir þínir og sonakonur þínar með þér. 17Og láttu fara út með þér öll dýr, sem með þér eru, af öllu holdi, bæði fuglana og fénaðinn og öll skriðkvikindin, sem skríða á jörðinni. Verði krökkt af þeim á jörðinni, verði þau frjósöm og fjölgi á jörðinni.`` 18Þá gekk Nói út og synir hans og kona hans og sonakonur hans með honum. 19Öll dýr, öll skriðkvikindi, allir fuglar, allt, sem bærist á jörðinni, hvað eftir sinni tegund, gekk út úr örkinni. 20Nói reisti þá Drottni altari og tók af öllum hreinum dýrum og hreinum fuglum og fórnaði brennifórn á altarinu. 21Og Drottinn kenndi þægilegan ilm, og Drottinn sagði við sjálfan sig: ,,Ég vil upp frá þessu ekki bölva jörðinni framar vegna mannsins, því að hugrenningar mannshjartans eru illar frá bernsku hans, og ég mun upp frá þessu ekki framar deyða allt, sem lifir, eins og ég hefi gjört. 22Meðan jörðin stendur, skal ekki linna sáning og uppskera, frost og hiti, sumar og vetur, dagur og nótt.``
Copyright information for Icelandic