‏ Genesis 49

1Þá lét Jakob kalla sonu sína og mælti: ,,Safnist saman, að ég megi birta yður það, sem fyrir yður liggur á komandi tímum.`` 2Skipist saman og hlýðið á, synir Jakobs, hlýðið á Ísrael föður yðar! 3Rúben, þú ert frumgetningur minn, kraftur minn og frumgróði styrkleika míns, fremstur að virðingum og fremstur að völdum. 4En þar eð þú ólgar sem vatnið, skalt þú eigi fremstur vera, því að þú gekkst í hvílu föður þíns. Þá flekkaðir þú hana, gekkst í hjónasæng mína! 5Símeon og Leví eru bræður, tól ofbeldis eru sverð þeirra. 6Sál mín komi ekki á ráðstefnu þeirra, sæmd mín hafi eigi félagsskap við söfnuð þeirra, því að í reiði sinni drápu þeir menn, og í ofsa sínum skáru þeir á hásinar nautanna. 7Bölvuð sé reiði þeirra, því að hún var römm, og bræði þeirra, því að hún var grimm. Ég vil dreifa þeim í Jakob og tvístra þeim í Ísrael. 8Júda, þig munu bræður þínir vegsama. Hönd þín mun vera á hálsi óvina þinna, synir föður þíns skulu lúta þér. 9Júda er ljónshvolpur, frá bráðinni ert þú stiginn upp, sonur minn. Hann leggst niður, hann hvílist sem ljón og sem ljónynja, hver þorir að reka hann á fætur? 10Ekki mun veldissprotinn víkja frá Júda, né ríkisvöndurinn frá fótum hans, uns sá kemur, er valdið hefur, og þjóðirnar ganga honum á hönd. 11Hann bindur við víntré ösnufola sinn, við gæðavínvið son ösnu sinnar, hann þvær klæði sín í víni og möttul sinn í vínberjablóði. 12Vínmóða er í augum hans og tennur hans hvítar af mjólk. 13Sebúlon mun búa við sjávarströndina, við ströndina þar sem skipin liggja, og land hans vita að Sídon. 14Íssakar er beinasterkur asni, sem liggur á milli fjárgirðinganna. 15Og hann sá, að hvíldin var góð og að landið var unaðslegt, og hann beygði herðar sínar undir byrðar og varð vinnuskyldur þræll. 16Dan mun rétta hluta þjóðar sinnar sem hver önnur Ísraels ættkvísl. 17Dan verður höggormur á veginum og naðra í götunni, sem hælbítur hestinn, svo að reiðmaðurinn fellur aftur á bak. 18Þinni hjálp treysti ég, Drottinn! 19Gað _ ræningjaflokkur fer að honum, en hann rekur þá á flótta. 20Asser _ feit er fæða hans, og hann veitir konungakrásir. 21Naftalí er rásandi hind, frá honum koma fegurðarorð. 22Jósef er ungur aldinviður, ungur aldinviður við uppsprettulind, greinar hans teygja sig upp yfir múrinn. 23Bogmenn veittust að honum, skutu að honum og ofsóttu hann, 24en bogi hans reyndist stinnur, og handleggir hans voru fimir. Sá styrkur kom frá Jakobs Volduga, frá Hirðinum, Hellubjargi Ísraels, 25frá Guði föður þíns, sem mun hjálpa þér, frá Almáttugum Guði, sem mun blessa þig með blessun himinsins að ofan, með blessun djúpsins, er undir hvílir, með blessun brjósta og móðurlífs. 26Blessunin, sem faðir þinn hlaut, gnæfði hærra en hin öldnu fjöll, hærra en unaður hinna eilífu hæða. Hún komi yfir höfuð Jósefs og í hvirfil hans, sem er höfðingi meðal bræðra sinna. 27Benjamín er úlfur, sem sundurrífur. Á morgnana etur hann bráð, og á kveldin skiptir hann herfangi. 28Allir þessir eru tólf kynþættir Ísraels, og þetta er það, sem faðir þeirra talaði við þá. Jakob blessaði þá, sérhvern blessaði hann með þeirri blessun, er honum bar. 29Og hann bauð þeim og mælti við þá: ,,Ég safnast nú til míns fólks. Jarðið mig hjá feðrum mínum, í hellinum, sem er í landi Efrons Hetíta, 30í hellinum, sem er í Makpelalandi og liggur gegnt Mamre í Kanaanlandi og Abraham keypti með akrinum af Efron Hetíta fyrir grafreit. 31Þar hafa þeir jarðað Abraham og Söru konu hans, þar hafa þeir jarðað Ísak og Rebekku konu hans, og þar hefi ég jarðað Leu. 32Akurinn og hellirinn, sem á honum er, hafði keyptur verið af Hetítum.`` 33Og er Jakob hafði lokið þessum fyrirmælum við sonu sína, lagði hann fætur sína upp í hvíluna og andaðist og safnaðist til síns fólks.
Copyright information for Icelandic