‏ Genesis 35

1Guð sagði við Jakob: ,,Tak þig upp og far upp til Betel og dvel þú þar og gjör þar altari Guði, sem birtist þér, þegar þú flýðir undan Esaú bróður þínum.`` 2Jakob sagði við heimafólk sitt og alla, sem með honum voru: ,,Kastið burt þeim útlendu goðum, sem þér hafið hjá yður, og hreinsið yður og hafið fataskipti, 3og skulum vér taka oss upp og fara upp til Betel. Vil ég reisa þar altari þeim Guði, sem bænheyrði mig á tíma neyðar minnar og hefir verið með mér á þeim vegi, sem ég hefi farið.`` 4Og þeir fengu Jakob öll þau útlendu goð, sem þeir höfðu hjá sér, og hringana, sem þeir höfðu í eyrum sér, og gróf Jakob það undir eikinni, sem er hjá Síkem. 5Því næst fóru þeir af stað. En ótti frá Guði var yfir öllum borgunum, sem voru umhverfis þá, svo að sonum Jakobs var ekki veitt eftirför. 6Og Jakob kom til Lúz, sem er í Kanaanlandi (það er Betel), hann og allt fólkið, sem með honum var. 7Og hann reisti þar altari og kallaði staðinn El-Betel, því að Guð hafði birst honum þar, þegar hann flýði undan bróður sínum. 8Þar andaðist Debóra, fóstra Rebekku, og var jörðuð fyrir neðan Betel, undir eikinni, og fyrir því heitir hún Gráteik. 9Enn birtist Guð Jakob, er hann var á heimleið frá Mesópótamíu, og blessaði hann. 10Og Guð sagði við hann: ,,Nafn þitt er Jakob. Eigi skalt þú héðan af Jakob heita, heldur skal nafn þitt vera Ísrael.`` Og hann nefndi hann Ísrael. 11Og Guð sagði við hann: ,,Ég er Almáttugur Guð. Ver þú frjósamur og auk kyn þitt. Þjóð, já fjöldi þjóða skal frá þér koma, og konungar skulu út ganga af lendum þínum. 12Og landið, sem ég gaf Abraham og Ísak, mun ég gefa þér, og niðjum þínum eftir þig mun ég gefa landið.`` 13Því næst sté Guð upp frá honum, þaðan sem hann talaði við hann. 14Jakob reisti upp merki á þeim stað, sem Guð talaði við hann, merkisstein, og dreypti yfir hann dreypifórn og hellti yfir hann olíu. 15Og Jakob nefndi staðinn, þar sem Guð talaði við hann, Betel. 16Þeir tóku sig upp frá Betel. En er þeir áttu skammt eftir ófarið til Efrata, tók Rakel léttasótt og kom hart niður. 17Og er hún kom svo hart niður í barnburðinum, sagði ljósmóðirin við hana: ,,Óttast þú ekki, því að nú eignast þú annan son.`` 18Og er hún var í andlátinu, _ því að hún dó _, þá nefndi hún hann Benóní, en faðir hans nefndi hann Benjamín. 19Því næst andaðist Rakel og var jörðuð við veginn til Efrata, það er Betlehem. 20Jakob reisti minnismerki á leiði hennar. Þar er legsteinn Rakelar allt til þessa dags. 21Ísrael hélt áfram ferðinni og sló tjöldum sínum hinumegin við Mígdal Eder. 22Meðan Ísrael hafðist við í því byggðarlagi, bar svo við, að Rúben fór og lagðist með Bílu, hjákonu föður síns. Og Ísrael varð þess áskynja. Jakob átti tólf sonu. 23Synir Leu: Rúben, frumgetinn son Jakobs, Símeon, Leví, Júda, Íssakar og Sebúlon. 24Synir Rakelar: Jósef og Benjamín. 25Synir Bílu, þernu Rakelar: Dan og Naftalí. 26Synir Silpu, þernu Leu: Gað og Asser. Þetta eru synir Jakobs, sem honum fæddust í Mesópótamíu. 27Og Jakob kom til Ísaks föður síns í Mamre við Kirjat Arba, það er Hebron, þar sem Abraham og Ísak höfðu dvalist sem útlendingar. 28En dagar Ísaks voru hundrað og áttatíu ár. 29Og Ísak andaðist og dó og safnaðist til síns fólks, gamall og saddur lífdaga, og Esaú og Jakob synir hans jörðuðu hann.
Copyright information for Icelandic