‏ Genesis 30

1En er Rakel sá, að hún ól Jakob ekki börn, öfundaði hún systur sína og sagði við Jakob: ,,Láttu mig eignast börn, ella mun ég deyja.`` 2Jakob reiddist þá við Rakel og sagði: ,,Er ég þá Guð? Það er hann sem hefir synjað þér lífsafkvæmis.`` 3Þá sagði hún: ,,Þarna er Bíla ambátt mín. Gakk þú inn til hennar, að hún megi fæða á skaut mitt og afla mér afkvæmis.`` 4Og hún gaf honum Bílu ambátt sína fyrir konu, og Jakob gekk inn til hennar. 5Og Bíla varð þunguð og ól Jakob son. 6Þá sagði Rakel: ,,Guð hefir rétt hluta minn og einnig bænheyrt mig og gefið mér son.`` Fyrir því nefndi hún hann Dan. 7Og Bíla, ambátt Rakelar, varð þunguð í annað sinn og ól Jakob annan son. 8Þá sagði Rakel: ,,Mikið stríð hefi ég þreytt við systur mína og unnið sigur.`` Og hún nefndi hann Naftalí. 9Er Lea sá, að hún lét af að eiga börn, tók hún Silpu ambátt sína og gaf Jakob hana fyrir konu. 10Og Silpa, ambátt Leu, ól Jakob son. 11Þá sagði Lea: ,,Til heilla!`` Og hún nefndi hann Gað. 12Og Silpa, ambátt Leu, ól Jakob annan son. 13Þá sagði Lea: ,,Sæl er ég, því að allar konur munu mig sæla segja.`` Og hún nefndi hann Asser. 14Rúben gekk eitt sinn út um hveitiskurðartímann og fann ástarepli á akrinum og færði þau Leu móður sinni. Þá sagði Rakel við Leu: ,,Gef þú mér nokkuð af ástareplum sonar þíns.`` 15En hún svaraði: ,,Er það ekki nóg, að þú tekur bónda minn frá mér, viltu nú einnig taka ástarepli sonar míns?`` Og Rakel mælti: ,,Hann má þá sofa hjá þér í nótt fyrir ástarepli sonar þíns.`` 16Er Jakob kom heim um kveldið af akrinum, gekk Lea út á móti honum og sagði: ,,Þú átt að ganga inn til mín, því að ég hefi keypt þig fyrir ástarepli sonar míns.`` Og hann svaf hjá henni þá nótt. 17En Guð bænheyrði Leu, og hún varð þunguð og ól Jakob hinn fimmta son og sagði: 18,,Guð hefir launað mér það, að ég gaf bónda mínum ambátt mína.`` Og hún nefndi hann Íssakar. 19Og Lea varð enn þunguð og ól Jakob hinn sjötta son. 20Þá sagði Lea: ,,Guð hefir gefið mér góða gjöf. Nú mun bóndi minn búa við mig, því að ég hefi alið honum sex sonu.`` Og hún nefndi hann Sebúlon. 21Eftir það ól hún dóttur og nefndi hana Dínu. 22Þá minntist Guð Rakelar og bænheyrði hana og opnaði móðurlíf hennar. 23Og hún varð þunguð og ól son og sagði: ,,Guð hefir numið burt smán mína.`` 24Og hún nefndi hann Jósef og sagði: ,,Guð bæti við mig öðrum syni!`` 25Er Rakel hafði alið Jósef, sagði Jakob við Laban: ,,Leyf þú mér nú að fara, að ég megi halda heim til átthaga minna og ættlands míns. 26Fá mér konur mínar og börn mín, sem ég hefi þjónað þér fyrir, að ég megi fara, því að þú veist, hvernig ég hefi þjónað þér.`` 27Þá sagði Laban við hann: ,,Hafi ég fundið náð í augum þínum, þá vertu kyrr. Ég hefi tekið eftir því, að Drottinn hefir blessað mig fyrir þínar sakir.`` 28Og hann mælti: ,,Set sjálfur upp kaup þitt við mig, og skal ég gjalda það.`` 29Jakob sagði við hann: ,,Þú veist sjálfur, hvernig ég hefi þjónað þér og hvað fénaður þinn er orðinn hjá mér. 30Því að lítið var það, sem þú áttir, áður en ég kom, en það hefir aukist margfaldlega, og Drottinn hefir blessað þig við hvert mitt fótmál. Og auk þess, hvenær á ég þá að veita forsjá húsi sjálfs mín?`` 31Og Laban mælti: ,,Hvað skal ég gefa þér?`` En Jakob sagði: ,,Þú skalt ekkert gefa mér, en viljir þú gjöra þetta, sem ég nú segi, þá vil ég enn þá halda fé þínu til haga og gæta þess. 32Ég ætla í dag að ganga innan um allt fé þitt og skilja úr því hverja flekkótta og spreklótta kind. Og hver svört kind meðal sauðanna og hið spreklótta og flekkótta meðal geitanna, það skal vera kaup mitt. 33Og ráðvendni mín skal eftirleiðis bera mér vitni, er þú kemur að skoða kaup mitt: Allt sem ekki er flekkótt og spreklótt meðal minna geita og svart meðal minna sauða, skal teljast stolið.`` 34Og Laban sagði: ,,Svo skal þá vera sem þú hefir sagt.`` 35Á þeim degi skildi Laban frá alla rílóttu og spreklóttu hafrana, og allar flekkóttu og spreklóttu geiturnar _ allt það, sem hafði á sér einhvern hvítan díla, _ og allt hið svarta meðal sauðanna og fékk sonum sínum. 36Og hann lét vera þriggja daga leið milli sín og Jakobs. En Jakob gætti þeirrar hjarðar Labans, sem eftir varð. 37Jakob tók sér stafi af grænni ösp, möndluviði og hlyni og skóf á þá hvítar rákir með því að nekja hið hvíta á stöfunum. 38Því næst lagði hann stafina, sem hann hafði birkt, í þrærnar, í vatnsrennurnar, sem féð kom að drekka úr, beint fyrir framan féð. En ærnar fengu, er þær komu að drekka. 39Þannig fengu ærnar uppi yfir stöfunum, og ærnar áttu rílótt, flekkótt og spreklótt lömb. 40Jakob skildi lömbin úr og lét féð horfa á hið rílótta og allt hið svarta í fé Labans. Þannig kom hann sér upp sérstökum fjárhópum og lét þá ekki saman við hjörð Labans. 41Og um allan göngutíma vænu ánna lagði Jakob stafina í þrærnar fyrir framan féð, svo að þær skyldu fá uppi yfir stöfunum. 42En er rýru ærnar gengu, lagði hann þá þar ekki. Þannig fékk Laban rýra féð, en Jakob hið væna. 43Og maðurinn varð stórauðugur og eignaðist mikinn fénað, ambáttir og þræla, úlfalda og asna.
Copyright information for Icelandic