‏ Genesis 28

1Þá kallaði Ísak Jakob til sín og blessaði hann. Og hann bauð honum og sagði við hann: ,,Þú skalt eigi taka þér konu af Kanaans dætrum. 2Tak þig upp og far til Mesópótamíu, í hús Betúels móðurföður þíns, og tak þér þar konu af dætrum Labans móðurbróður þíns. 3Og Almáttugur Guð blessi þig og gjöri þig frjósaman og margfaldi þig, svo að þú verðir að mörgum kynkvíslum. 4Hann gefi þér blessun Abrahams, þér og niðjum þínum með þér, að þú megir eignast það land, er þú býr í sem útlendingur og Guð gaf Abraham.`` 5Síðan sendi Ísak Jakob burt, og hann fór til Mesópótamíu, til Labans Betúelssonar hins arameíska, bróður Rebekku, móður þeirra Jakobs og Esaú. 6En Esaú varð þess vís, að Ísak hafði blessað Jakob og sent hann til Mesópótamíu til að taka sér þar konu, að hann hafði blessað hann, boðið honum og sagt: ,,Þú skalt ekki taka þér konu af Kanaans dætrum,`` 7og að Jakob hafði hlýðnast föður sínum og móður sinni og farið til Mesópótamíu. 8Þá sá Esaú, að Kanaans dætur geðjuðust eigi Ísak föður hans. 9Fór Esaú því til Ísmaels og tók Mahalat, dóttur Ísmaels Abrahamssonar, systur Nebajóts, sér fyrir konu, auk þeirra kvenna, sem hann átti áður. 10Jakob lagði af stað frá Beerseba og hélt á leið til Harran. 11Og hann kom á stað nokkurn og var þar um nóttina, því að sól var runnin. Og hann tók einn af steinum þeim, er þar voru, og lagði undir höfuð sér, lagðist því næst til svefns á þessum stað. 12Þá dreymdi hann. Honum þótti stigi standa á jörðu og efri endi hans ná til himins, og sjá, englar Guðs fóru upp og ofan eftir stiganum. 13Og sjá, Drottinn stóð hjá honum og sagði: ,,Ég er Drottinn, Guð Abrahams föður þíns og Guð Ísaks. Landið, sem þú hvílist á, mun ég gefa þér og niðjum þínum. 14Og niðjar þínir skulu verða sem duft jarðar, og þú skalt útbreiðast til vesturs og austurs, norðurs og suðurs, og af þér munu allar ættkvíslir jarðarinnar blessun hljóta og af þínu afkvæmi. 15Og sjá, ég er með þér og varðveiti þig, hvert sem þú fer, og ég mun aftur flytja þig til þessa lands, því að ekki mun ég yfirgefa þig fyrr en ég hefi gjört það, sem ég hefi þér heitið.`` 16Þá vaknaði Jakob af svefni sínum og mælti: ,,Sannlega er Drottinn á þessum stað, og ég vissi það ekki!`` 17Og ótta sló yfir hann og hann sagði: ,,Hversu hræðilegur er þessi staður! Hér er vissulega Guðs hús, og hér er hlið himinsins!`` 18Og Jakob reis árla um morguninn og tók steininn, sem hann hafði haft undir höfðinu, og reisti hann upp til merkis og hellti olíu yfir hann. 19Og hann nefndi þennan stað Betel, en áður hafði borgin heitið Lúz. 20Og Jakob gjörði heit og mælti: ,,Ef Guð verður með mér og varðveitir mig á þessari ferð, sem ég nú fer, og gefur mér brauð að eta og föt að klæðast, 21og ef ég kemst farsællega aftur heim í hús föður míns, þá skal Drottinn vera minn Guð, 22og þessi steinn, sem ég hefi upp reist til merkis, skal verða Guðs hús, og ég skal færa þér tíundir af öllu, sem þú gefur mér.``
Copyright information for Icelandic