Genesis 27
1Svo bar til, er Ísak var orðinn gamall og augu hans döpruðust, svo að hann gat ekki séð, að hann kallaði á Esaú, eldri son sinn, og mælti til hans: ,,Sonur minn!`` Og hann svaraði honum: ,,Hér er ég.`` 2Og hann sagði: ,,Sjá, ég er orðinn gamall og veit ekki, nær ég muni deyja. 3Tak þú nú veiðigögn þín, örvamæli þinn og boga, og far þú á heiðar og veið mér villidýr. 4Og tilreið mér ljúffengan rétt, sem mér geðjast að, og fær mér hann, að ég megi eta, svo að sál mín blessi þig, áður en ég dey.`` 5En Rebekka heyrði, hvað Ísak talaði við Esaú son sinn. Og er Esaú var farinn út á heiðar til að veiða villidýr og hafa heim með sér, 6mælti Rebekka við Jakob son sinn á þessa leið: ,,Sjá, ég heyrði föður þinn tala við Esaú bróður þinn og segja: 7,Fær þú mér villibráð og tilreið mér ljúffengan rétt, að ég megi eta og blessa þig í augsýn Drottins, áður en ég dey.` 8Og hlýð þú mér nú, sonur minn, og gjör sem ég segi þér. 9Far þú til hjarðarinnar og fær mér tvö væn hafurkið úr henni, að ég megi tilreiða föður þínum ljúffengan rétt, sem honum geðjast að, 10og skalt þú færa hann föður þínum, að hann megi eta, svo að hann blessi þig, áður en hann deyr.`` 11En Jakob sagði við Rebekku móður sína: ,,Gáðu að, Esaú bróðir minn er loðinn, en ég er snöggur. 12Vera má að faðir minn þreifi á mér og þyki sem ég hafi viljað dára sig. Mun ég þá leiða yfir mig bölvun, en ekki blessun.`` 13En móðir hans sagði við hann: ,,Yfir mig komi sú bölvun, sonur minn. Hlýð þú mér aðeins. Farðu og sæktu mér kiðin.`` 14Þá fór hann og sótti þau og færði móður sinni. Og móðir hans tilreiddi ljúffengan rétt, sem föður hans geðjaðist að. 15Og Rebekka tók klæðnað góðan af Esaú, eldri syni sínum, sem hún hafði hjá sér í húsinu, og færði Jakob, yngri son sinn, í hann. 16En kiðskinnin lét hún um hendur hans og um hálsinn, þar sem hann var hárlaus. 17Og hún fékk Jakob syni sínum í hendur hinn ljúffenga rétt og brauðið, sem hún hafði gjört. 18Þá gekk hann inn til föður síns og mælti: ,,Faðir minn!`` Og hann svaraði: ,,Hér er ég. Hver ert þú, son minn?`` 19Og Jakob sagði við föður sinn: ,,Ég er Esaú, sonur þinn frumgetinn. Ég hefi gjört sem þú bauðst mér. Sestu nú upp og et af villibráð minni, svo að sál þín blessi mig.`` 20Og Ísak sagði við son sinn: ,,Hvernig máttir þú svo skjótlega finna nokkuð, son minn?`` Og hann mælti: ,,Drottinn, Guð þinn, lét það verða á vegi mínum.`` 21Þá sagði Ísak við Jakob: ,,Kom þú samt nær, að ég megi þreifa á þér, son minn, hvort þú sannlega ert Esaú sonur minn eða ekki.`` 22Jakob gekk þá að Ísak föður sínum, og hann þreifaði á honum og mælti: ,,Röddin er rödd Jakobs, en hendurnar eru hendur Esaú.`` 23Og hann þekkti hann ekki, því að hendur hans voru loðnar eins og hendur Esaú bróður hans, og hann blessaði hann. 24Og hann mælti: ,,Ert þú þá Esaú sonur minn?`` Og hann svaraði: ,,Ég er hann.`` 25Þá sagði hann: ,,Kom þú þá með það, að ég eti af villibráð sonar míns, svo að sál mín megi blessa þig.`` Og hann færði honum það og hann át, og hann bar honum vín og hann drakk. 26Og Ísak faðir hans sagði við hann: ,,Kom þú nær og kyss þú mig, son minn!`` 27Og hann gekk að honum og kyssti hann. Kenndi hann þá ilm af klæðum hans og blessaði hann og mælti: Sjá, ilmurinn af syni mínum er sem ilmur af akri, sem Drottinn hefir blessað. 28Guð gefi þér dögg af himni og feiti jarðar og gnægð korns og víns. 29Þjóðir skulu þjóna þér og lýðir lúta þér. Þú skalt vera herra bræðra þinna, og synir móður þinnar skulu lúta þér. Bölvaður sé hver sá, sem bölvar þér, en blessaður sé hver sá, sem blessar þig! 30Er Ísak hafði lokið blessuninni yfir Jakob og Jakob var nýgenginn út frá Ísak föður sínum, þá kom Esaú bróðir hans heim úr veiðiför sinni. 31Og hann tilreiddi einnig ljúffengan rétt og bar föður sínum, og hann mælti við föður sinn: ,,Rístu upp, faðir minn, og et af villibráð sonar þíns, svo að sál þín blessi mig.`` 32En Ísak faðir hans sagði við hann: ,,Hver ert þú?`` Og hann mælti: ,,Ég er sonur þinn, þinn frumgetinn son Esaú.`` 33Þá varð Ísak felmtsfullur harla mjög og mælti: ,,Hver var það þá, sem veiddi villidýr og færði mér, svo að ég át af því öllu, áður en þú komst, og blessaði hann? Blessaður mun hann og verða.`` 34En er Esaú heyrði þessi orð föður síns, hljóðaði hann upp yfir sig hátt mjög og sáran og mælti við föður sinn: ,,Blessa þú mig líka, faðir minn!`` 35Og hann mælti: ,,Bróðir þinn kom með vélráðum og tók blessun þína.`` 36Þá mælti hann: ,,Vissulega er hann réttnefndur Jakob, því að tvisvar sinnum hefir hann nú leikið á mig. Frumburðarrétt minn hefir hann tekið, og nú hefir hann einnig tekið blessun mína.`` Því næst mælti hann: ,,Hefir þú þá enga blessun geymt mér?`` 37Og Ísak svaraði og sagði við Esaú: ,,Sjá, ég hefi skipað hann herra yfir þig, og ég hefi gefið honum alla bræður sína að þrælum, og ég hefi séð honum fyrir korni og víni. Hvað get ég þá gjört fyrir þig, sonur minn?`` 38Og Esaú mælti við föður sinn: ,,Hefir þú ekki nema þessa einu blessun til, faðir minn? Blessa mig líka, faðir minn!`` Og Esaú tók að gráta hástöfum. 39Þá svaraði Ísak faðir hans og sagði við hann: Fjarri jarðarinnar feiti skal bústaður þinn vera og án daggar af himni ofan. 40En af sverði þínu muntu lifa, og bróður þínum muntu þjóna. En svo mun fara, er þú neytir allrar orku þinnar, að þú munt brjóta sundur ok hans af hálsi þínum. 41Esaú lagði hatur á Jakob sakir þeirrar blessunar, sem faðir hans hafði gefið honum. Og Esaú hugsaði með sjálfum sér: ,,Þess mun eigi langt að bíða, að menn munu syrgja föður minn látinn, og skal ég þá drepa Jakob bróður minn.`` 42Og Rebekku bárust orð Esaú, eldri sonar hennar. Þá sendi hún og lét kalla Jakob, yngri son sinn, og mælti við hann: ,,Sjá, Esaú bróðir þinn hyggur á hefndir við þig og ætlar að drepa þig. 43Og far þú nú að ráðum mínum, sonur minn! Tak þig upp og flý til Labans, bróður míns í Harran, 44og dvel hjá honum nokkurn tíma, þangað til heift bróður þíns sefast, 45þangað til bróður þínum er runnin reiðin við þig og hann hefir gleymt því, sem þú hefir honum í móti gjört. Þá mun ég senda eftir þér og láta sækja þig þangað. Hví skyldi ég missa ykkur báða á einum degi?`` 46Rebekka mælti við Ísak: ,,Ég er orðin leið á lífinu vegna Hets dætra. Ef Jakob tæki sér konu slíka sem þessar eru, meðal Hets dætra, meðal hérlendra kvenna, hví skyldi ég þá lengur lifa?``
Copyright information for
Icelandic