Genesis 22
1Eftir þessa atburði freistaði Guð Abrahams og mælti til hans: ,,Abraham!`` Hann svaraði: ,,Hér er ég.`` 2Hann sagði: ,,Tak þú einkason þinn, sem þú elskar, hann Ísak, og far þú til Móríalands og fórna honum þar að brennifórn á einu af fjöllunum, sem ég mun segja þér til.`` 3Abraham var árla á fótum næsta morgun og lagði á asna sinn, og tók með sér tvo sveina sína og Ísak son sinn. Og hann klauf viðinn til brennifórnarinnar, tók sig upp og hélt af stað, þangað sem Guð sagði honum. 4Á þriðja degi hóf Abraham upp augu sín og sá staðinn álengdar. 5Þá sagði Abraham við sveina sína: ,,Bíðið hér hjá asnanum, en við smásveinninn munum ganga þangað til að biðjast fyrir, og komum svo til ykkar aftur.`` 6Og Abraham tók brennifórnarviðinn og lagði syni sínum Ísak á herðar, en tók eldinn og hnífinn sér í hönd. Og svo gengu þeir báðir saman. 7Þá mælti Ísak við Abraham föður sinn: ,,Faðir minn!`` Hann svaraði: ,,Hér er ég, sonur minn!`` Hann mælti: ,,Hér er eldurinn og viðurinn, en hvar er sauðurinn til brennifórnarinnar?`` 8Og Abraham sagði: ,,Guð mun sjá sér fyrir sauð til brennifórnarinnar, sonur minn.`` Og svo gengu þeir báðir saman. 9En er þeir komu þangað, er Guð hafði sagt honum, reisti Abraham þar altari og lagði viðinn á, og batt son sinn Ísak og lagði hann upp á altarið, ofan á viðinn. 10Og Abraham rétti út hönd sína og tók hnífinn til að slátra syni sínum. 11Þá kallaði engill Drottins til hans af himni og mælti: ,,Abraham! Abraham!`` Hann svaraði: ,,Hér er ég.`` 12Hann sagði: ,,Legg þú ekki hönd á sveininn og gjör þú honum ekkert, því að nú veit ég, að þú óttast Guð, þar sem þú synjaðir mér ekki um einkason þinn.`` 13Þá varð Abraham litið upp, og hann sá hrút bak við sig, sem var fastur á hornunum í hrísrunni. Og Abraham fór og tók hrútinn og bar hann fram að brennifórn í stað sonar síns. 14Og Abraham kallaði þennan stað ,,Drottinn sér,`` svo að það er máltæki allt til þessa dags: ,,Á fjallinu, þar sem Drottinn birtist.`` 15Engill Drottins kallaði annað sinn af himni til Abrahams 16og mælti: ,,Ég sver við sjálfan mig,`` segir Drottinn, ,,að fyrst þú gjörðir þetta og synjaðir mér eigi um einkason þinn, 17þá skal ég ríkulega blessa þig og stórum margfalda kyn þitt, sem stjörnur á himni, sem sand á sjávarströnd. Og niðjar þínir skulu eignast borgarhlið óvina sinna. 18Og af þínu afkvæmi skulu allar þjóðir á jörðinni blessun hljóta, vegna þess að þú hlýddir minni röddu.`` 19Eftir það fór Abraham aftur til sveina sinna, og þeir tóku sig upp og fóru allir saman til Beerseba. Og Abraham bjó enn um hríð í Beerseba. 20Eftir þetta bar svo við, að Abraham var sagt: ,,Sjá, Milka hefir og fætt bróður þínum Nahor sonu: 21Ús, frumgetning hans, og Bús, bróður hans, og Kemúel, ættföður Aramea, 22og Kesed, Kasó, Píldas, Jídlaf og Betúel.`` En Betúel gat Rebekku. 23Þessa átta fæddi Milka Nahor, bróður Abrahams. 24Og hann átti hjákonu, sem hét Reúma. Hún ól honum og sonu, þá Teba, Gaham, Tahas og Maaka.
Copyright information for
Icelandic