‏ Galatians 5

1Til frelsis frelsaði Kristur oss. Standið því stöðugir og látið ekki aftur leggja á yður ánauðarok. 2Takið eftir því, sem ég, Páll, segi yður: Ef þér látið umskerast, þá gagnar Kristur yður ekkert. 3Og enn vitna ég fyrir hverjum manni, sem lætur umskerast: Hann er skyldur til að halda allt lögmálið. 4Þér eruð orðnir viðskila við Krist, þér sem ætlið að réttlætast með lögmáli. Þér eruð fallnir úr náðinni. 5En vér væntum í andanum að öðlast af trúnni réttlætinguna, sem er von vor. 6Í Kristi Jesú er ekkert komið undir umskurn né yfirhúð, heldur undir trú, sem starfar í kærleika. 7Þér hlupuð vel. Hver hefur hindrað yður í að hlýða sannleikanum? 8Þær fortölur voru ekki frá honum, sem kallaði yður. 9Lítið súrdeig sýrir allt deigið. 10Ég hef það traust til yðar í Drottni, að þér verðið sama sinnis og ég. Sá sem truflar yður mun bera sinn dóm, hver sem hann svo er. 11En hvað mig snertir, bræður, ef ég er enn þá að prédika umskurn, hví er þá enn verið að ofsækja mig? Þá væri hneyksli krossins tekið burt. 12Vel mættu þeir, sem koma yður í uppnám, aflima sig. 13Þér voruð, bræður, kallaðir til frelsis. Notið aðeins ekki frelsið til færis fyrir holdið, heldur þjónið hver öðrum í kærleika. 14Allt lögmálið er uppfyllt með þessu eina boðorði: ,,Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.`` 15En ef þér bítist og etið hver annan upp, þá gætið þess, að þér tortímist ekki hver fyrir öðrum. 16En ég segi: Lifið í andanum, og þá fullnægið þér alls ekki girnd holdsins. 17Holdið girnist gegn andanum, og andinn gegn holdinu. Þau standa hvort gegn öðru, til þess að þér gjörið ekki það, sem þér viljið. 18En ef þér leiðist af andanum, þá eruð þér ekki undir lögmáli. 19Holdsins verk eru augljós: Frillulífi, óhreinleiki, saurlífi, 20skurðgoðadýrkun, fjölkynngi, fjandskapur, deilur, metingur, reiði, eigingirni, tvídrægni, flokkadráttur, 21öfund, ofdrykkja, svall og annað þessu líkt. Og það segi ég yður fyrir, eins og ég hef áður sagt, að þeir, sem slíkt gjöra, munu ekki erfa Guðs ríki. 22En ávöxtur andans er: Kærleiki, gleði, friður, langlyndi, gæska, góðvild, trúmennska, 23hógværð og bindindi. Gegn slíku er lögmálið ekki. 24En þeir, sem tilheyra Kristi Jesú, hafa krossfest holdið með ástríðum þess og girndum. 25Fyrst andinn er líf vort skulum vér lifa í andanum! 26Verum ekki hégómagjarnir, svo að vér áreitum hver annan og öfundum hver annan.
Copyright information for Icelandic