Ezekiel 7
1Orð Drottins kom til mín, svohljóðandi: 2,,En þú, mannsson, seg: Svo talar Drottinn Guð til Ísraelslands: Endir kemur, endirinn kemur yfir fjórar álfur landsins. 3Nú kemur endirinn yfir þig, og ég sendi reiði mína móti þér og dæmi þig eftir hegðun þinni og læt allar svívirðingar þínar niður á þér koma. 4Og ég skal ekki líta þig vægðarauga og enga meðaumkun sýna, heldur láta hegðun þína koma niður á þér, og svívirðingar þínar skulu vera mitt á meðal þín, og þannig skuluð þér viðurkenna, að ég er Drottinn. 5Svo segir Drottinn Guð: Ógæfa, já ógæfa kemur! 6Endir kemur, endirinn kemur, hann er að vakna gegn þér, sjá, hann kemur! 7Örlögin koma yfir þig, íbúi landsins, tíminn kemur, dagurinn er nálægur, dagur skelfingar, en ekki fagnaðarláta á fjöllunum. 8Nú úthelli ég bráðum heift minni yfir þig og læt alla reiði mína yfir þig dynja, ég dæmi þig eftir hegðun þinni og læt allar svívirðingar þínar niður á þér koma. 9Og ég skal ekki líta þig vægðarauga og enga meðaumkun sýna, heldur láta hegðun þína koma niður á þér, og svívirðingar þínar skulu vera mitt á meðal þín, og þannig skuluð þér viðurkenna, að ég, Drottinn, er sá sem tyftar. 10Sjá, þarna er dagurinn, sjá, hann kemur. Kórónan sprettur fram, sprotinn blómgast, drambsemin þróast. 11Ofbeldið rís upp sem vöndur á ranglætið. Ekkert verður eftir af þeim, ekkert af skrauti þeirra og ekkert af auðæfum þeirra, dýrð þeirra er öll úti. 12Tíminn kemur, dagurinn nálgast. Kaupandinn fagni ekki og seljandinn syrgi ekki, því að reiði mín er upptendruð gegn öllu skrauti landsins. 13Því að seljandinn mun ekki aftur að seldu komast og kaupandinn mun ekki halda hinu keypta. 14Menn blása í hornið og búa allt út, en enginn fer í orustuna, því að reiði mín er upptendruð gegn öllum auðæfum hennar. 15Sverðið úti, og hungrið og drepsóttin inni. Sá sem er á akri skal fyrir sverði falla og þeim, sem innan borgar er, skal hungur og drepsótt eyða. 16Komist nokkrir af þeim undan, munu þeir vera á fjöllunum, eins og daladúfurnar, sem allar kurra, _ hver og einn vegna misgjörðar sinnar. 17Allar hendur munu verða lémagna og öll kné leysast sundur og verða að vatni. 18Og þeir munu gyrðast hærusekk, og skelfing mun hylja þá. Skömm mun sitja á hverju andliti, og hvert höfuð vera sköllótt. 19Silfri sínu munu þeir varpa út á strætin, og gull þeirra mun vera þeim sem saur. Silfur þeirra og gull fær eigi frelsað þá á reiðidegi Drottins. Þeir munu eigi seðja með því hungur sitt né fylla með því kvið sinn, því að það varð þeim fótakefli til hrösunar. 20Sínu dýrlega skrauti varði þjóðin til dramblætis, og þeir gjörðu af því svívirðilegar líkneskjur, viðurstyggðir sínar. Fyrir því gjöri ég það í augum þeirra sem saur. 21Og ég skal selja það útlendingum í hendur að herfangi og hinum óguðlegustu mönnum á jörðunni að ránsfeng, og þeir skulu vanhelga það. 22Og ég skal snúa augliti mínu frá þeim, og þá munu menn vanhelga kjörgrip minn, og ræningjar skulu brjótast inn í hann og vanhelga hann. 23Bú þú til fjötur, því að landið er fullt af blóðskuld og borgin er full af ofbeldisverkum. 24Og ég mun stefna hingað hinum verstu heiðingjum. Þeir skulu kasta eign sinni á hús þeirra, og ég mun gjöra enda á hinu ofmetnaðarfulla valdi þeirra, og helgidómar þeirra skulu verða vanhelgaðir. 25Angist kemur, og þeir munu hjálpar leita, en enga fá. 26Eitt óhappið fylgir öðru, og hver ótíðindin koma á fætur öðrum. Þá munu þeir beiðast vitrunar af spámanni, og þá mun leiðbeiningin vera horfin frá prestunum og ráðin frá öldungunum. 27Konungurinn mun syrgja og landshöfðinginn klæðast skelfingu og hendur landslýðsins verða magnþrota af hræðslu. Eftir breytni þeirra mun ég með þá fara og dæma þá eftir verðleikum þeirra, og þeir skulu viðurkenna, að ég er Drottinn.``
Copyright information for
Icelandic