Ezekiel 1
1Á þrítugasta árinu, í fjórða mánuðinum, hinn fimmta dag mánaðarins, þá er ég var á meðal hinna herleiddu við Kebarfljótið, opnaðist himinninn og ég sá guðlegar sýnir. 2Fimmta dag mánaðarins, það var fimmta árið eftir að Jójakín konungur var burt fluttur, 3þá kom orð Drottins til Esekíels Búsísonar prests í Kaldealandi við Kebarfljótið, og hönd Drottins kom þar yfir hann. 4Ég sá, og sjá: Stormvindur kom úr norðri og ský mikið og eldur, sem hnyklaðist saman, og stóð af því bjarmi umhverfis, og út úr honum sást eitthvað, sem glóði eins og lýsigull. 5Út úr honum sáust myndir af fjórum verum. Og þetta var útlit þeirra: Mannsmynd var á þeim. 6Hver þeirra hafði fjórar ásjónur og hver þeirra hafði fjóra vængi. 7Fætur þeirra voru keipréttir og iljarnar sterklegar eins og kálfsiljar, og þeir blikuðu eins og skyggður eir. 8Og undir vængjum þeirra á hliðunum fjórum voru mannshendur. 9Vængir þeirra lágu hver upp að öðrum, og ásjónur þeirra fjögurra sneru sér ekki við, er þær gengu, heldur gekk hver beint af augum fram. 10Ásjónur þeirra litu svo út: Mannsandlit að framan, ljónsandlit hægra megin á þeim fjórum, nautsandlit vinstra megin á þeim fjórum og arnarandlit á þeim fjórum aftanvert. 11Og vængir þeirra voru þandir upp á við. Hver þeirra hafði tvo vængi, sem voru tengdir saman, og tvo vængi, sem huldu líkami þeirra. 12Og þær gengu hver fyrir sig beint af augum fram, þær gengu þangað, sem andinn vildi fara, þær snerust eigi við í göngunni. 13Milli veranna var að sjá sem eldsglæður brynnu. Það var eins og blys færu aftur og fram milli veranna, og bjarma lagði af eldinum og út frá eldinum gengu leiftur. 14Og verurnar hlupu fram og aftur eins og glampi af leiftri. 15Enn fremur sá ég, og sjá: Eitt hjól stóð á jörðinni hjá hverri af verunum fjórum. 16Og hjólin voru á að líta eins og þegar blikar á krýsolít, og öll fjögur voru þau samlík og þannig gjörð, sem eitt hjólið væri innan í öðru hjóli. 17Þau gengu til allra fjögurra hliða, þau snerust eigi, er þau gengu. 18Og hjólbaugar þeirra _ þeir voru háir og ógurlegir _ hjólbaugar þeirra voru alsettir augum allt umhverfis á þeim fjórum. 19Og þegar verurnar gengu, þá gengu og hjólin við hliðina á þeim, og þegar verurnar hófu sig frá jörðu, þá hófu og hjólin sig. 20Þangað sem andinn vildi fara, þangað gengu þær, og hjólin hófust upp samtímis þeim, því að andi veranna var í hjólunum. 21Þegar þær gengu, gengu þau einnig, þegar þær stóðu kyrrar, stóðu þau og kyrr, og þegar þær hófust frá jörðu, hófust og hjólin samtímis þeim, því að andi verunnar var í hjólunum. 22Uppi yfir höfðum veranna var því líkast sem hvelfing væri, blikandi sem kristall. Þandist hún út uppi yfir höfðum þeirra. 23Og undir hvelfingunni voru vængir þeirra út þandir hver á móti öðrum, og hver þeirra hafði tvo vængi, sem huldu líkami þeirra. 24Ég heyrði vængjaþyt þeirra, eins og nið mikilla vatna, sem þrumu hins Almáttka, er þær gengu, gnýrinn og hávaðinn var sem gnýr í herbúðum. Þegar þær stóðu kyrrar, létu þær vængina síga. 25En þytur var uppi yfir hvelfingunni, sem var yfir höfðum þeirra, þegar þær stóðu kyrrar, létu þær vængina síga. 26En uppi yfir hvelfingunni, sem var yfir höfðum þeirra, var að sjá sem safírsteinn væri, í lögun sem hásæti, og þar uppi á hásætinu, sem svo sýndist, var mynd nokkur í mannslíki. 27Sú mynd þótti mér því líkust sem glóandi lýsigull væri þar neðan frá, sem mér þótti mittið vera og upp eftir, en ofan frá því, sem mér þótti mittið vera, og niður eftir þótti mér hún álits sem eldur, og umhverfis hana var bjarmi. 28Bjarminn umhverfis var tilsýndar líkur boga þeim, sem í skýjum stendur, þegar rignir. Þannig var ímynd dýrðar Drottins á að líta. Og er ég sá hana, féll ég fram á ásjónu mína, og ég heyrði rödd einhvers, sem talaði.
Copyright information for
Icelandic