‏ Exodus 4

1Móse svaraði og sagði: ,,Sjá, þeir munu eigi trúa mér og eigi skipast við orð mín, heldur segja: ,Guð hefir ekki birst þér!``` 2Þá sagði Drottinn við hann: ,,Hvað er það, sem þú hefir í hendi þér?`` Hann svaraði: ,,Stafur er það.`` 3Hann sagði: ,,Kasta þú honum til jarðar!`` Og hann kastaði honum til jarðar, og stafurinn varð að höggormi, og hrökk Móse undan honum. 4Þá sagði Drottinn við Móse: ,,Rétt þú út hönd þína og gríp um ormshalann!`` Þá rétti hann út hönd sína og tók um hann, og varð hann þá aftur að staf í hendi hans, _ 5,,að þeir megi trúa því, að Drottinn, Guð feðra þeirra, Guð Abrahams, Guð Ísaks og Guð Jakobs, hafi birst þér.`` 6Drottinn sagði enn fremur við hann: ,,Sting hendi þinni í barm þér!`` Og hann stakk hendi sinni í barm sér. En er hann tók hana út aftur, var höndin orðin líkþrá og hvít sem snjór. 7Og hann sagði: ,,Sting aftur hendi þinni í barm þér!`` Og hann stakk hendinni aftur í barm sér. En er hann tók hana aftur út úr barminum, var hún aftur orðin sem annað hold hans. 8,,Vilji þeir nú ekki trúa þér eða skipast við hið fyrra jarteiknið, þá munu þeir skipast við hið síðara. 9En ef þeir vilja hvorugu þessu jarteikni trúa eða skipast láta við orð þín, þá skalt þú taka vatn úr ánni og ausa því upp á þurrt land, og mun þá það vatn er þú tekur úr ánni verða að blóði á þurrlendinu.`` 10Þá sagði Móse við Drottin: ,,Æ, Drottinn, aldrei hefi ég málsnjall maður verið, hvorki áður fyrr né heldur síðan þú talaðir við þjón þinn, því að mér er tregt um málfæri og tungutak.`` 11En Drottinn sagði við hann: ,,Hver gefur manninum málið, eða hver gjörir hann mállausan eða daufan eða skyggnan eða blindan? Er það ekki ég, Drottinn, sem gjöri það? 12Far nú, ég skal vera með munni þínum og kenna þér, hvað þú skalt mæla.`` 13En hann svaraði: ,,Æ, Drottinn, send þú einhvern annan.`` 14Þá reiddist Drottinn Móse og sagði: ,,Þá er Aron bróðir þinn, levítinn! Ég veit að hann er vel máli farinn. Og meira að segja, sjá, hann fer til móts við þig, og þá er hann sér þig, mun hann fagna í hjarta sínu. 15Þú skalt tala til hans og leggja honum orðin í munn, en ég mun vera með munni þínum og munni hans og kenna ykkur, hvað þið skuluð gjöra. 16Hann skal tala fyrir þig til lýðsins, og hann skal vera þér sem munnur, en þú skalt vera honum sem Guð. 17Staf þennan skalt þú hafa í hendi þér. Með honum skalt þú jarteiknin gjöra.`` 18Síðan fór Móse heim aftur til Jetró tengdaföður síns og mælti til hans: ,,Leyf mér að fara og hverfa aftur til ættbræðra minna, sem á Egyptalandi eru, svo að ég viti, hvort þeir eru enn á lífi.`` Og Jetró sagði við Móse: ,,Far þú í friði!`` 19Drottinn sagði við Móse í Midíanslandi: ,,Far þú og hverf aftur til Egyptalands, því að þeir eru allir dauðir, sem leituðu eftir lífi þínu.`` 20Þá tók Móse konu sína og sonu, setti þau upp á asna og fór aftur til Egyptalands. Og Móse tók Guðs staf í hönd sér. 21Drottinn sagði við Móse: ,,Sjá svo til, þá er þú kemur aftur í Egyptaland, að þú fremjir öll þau undur fyrir Faraó, sem ég hefi gefið þér vald til. En ég mun herða hjarta hans, svo að hann mun eigi leyfa fólkinu að fara. 22En þú skalt segja við Faraó: Svo segir Drottinn: ,Ísraelslýður er minn frumgetinn sonur. 23Ég segi þér: Lát son minn fara, að hann megi þjóna mér. En viljir þú hann eigi lausan láta, sjá, þá skal ég deyða frumgetinn son þinn.``` 24Á leiðinni bar svo við í gistingarstað einum, að Drottinn réðst í móti honum og vildi deyða hann. 25Þá tók Sippóra hvassan stein og afsneið yfirhúð sonar síns og snerti fætur hans og sagði: ,,Þú ert sannlega minn blóðbrúðgumi!`` 26Þá sleppti hann honum. En ,blóðbrúðgumi` sagði hún vegna umskurnarinnar. 27Drottinn sagði við Aron: ,,Far þú út í eyðimörkina til móts við Móse.`` Og hann fór og mætti honum á Guðs fjalli og minntist við hann. 28Sagði Móse þá Aroni öll orð Drottins, er hann hafði fyrir hann lagt, og öll þau jarteikn, sem hann hafði boðið honum að gjöra. 29Þeir Móse og Aron fóru nú og stefndu saman öllum öldungum Ísraelsmanna, 30og flutti Aron öll þau orð, er Drottinn hafði mælt við Móse, og hann gjörði táknin í augsýn fólksins. 31Og fólkið trúði. Og er þeir heyrðu, að Drottinn hafði vitjað Ísraelsmanna og litið á eymd þeirra, féllu þeir fram og tilbáðu.
Copyright information for Icelandic