‏ Exodus 38

1Þá gjörði hann brennifórnaraltarið af akasíuviði. Það var fimm álna langt og fimm álna breitt, ferhyrnt og þriggja álna hátt. 2Og hann gjörði hornin á því upp af fjórum hyrningum þess, _ þau horn voru áföst við það _, og hann eirlagði það. 3Og hann gjörði öll áhöld, sem altarinu skyldu fylgja: kerin, eldspaðana, fórnarskálirnar, soðkrókana og eldpönnurnar. Öll áhöld þess gjörði hann af eiri. 4Enn fremur gjörði hann um altarið eirgrind, eins og riðið net, fyrir neðan umgjörð þess undir niðri allt upp að miðju þess. 5Og hann steypti fjóra hringa í fjögur horn eirgrindarinnar til að smeygja í stöngunum. 6En stengurnar gjörði hann af akasíuviði og eirlagði þær. 7Og hann smeygði stöngunum í hringana á hliðum altarisins til að bera það á. Hann gjörði það af borðum, holt að innan. 8Því næst gjörði hann eirkerið með eirstétt úr speglum kvenna þeirra, er gegndu þjónustu við dyr samfundatjaldsins. 9Hann gjörði forgarðinn þannig: Á suðurhliðinni voru tjöld fyrir forgarðinum úr tvinnaðri baðmull, hundrað álna löng, 10með tuttugu stólpum og tuttugu undirstöðum af eiri, en naglar í stólpunum og hringrandir á þeim voru af silfri. 11Á norðurhliðinni voru og hundrað álna tjöld með tuttugu stólpum og tuttugu undirstöðum af eiri, en naglarnir í stólpunum og hringrandirnar á þeim voru af silfri. 12Að vestanverðu voru fimmtíu álna löng tjöld með tíu stólpum og tíu undirstöðum, en naglarnir í stólpunum og hringrandirnar á þeim voru af silfri. 13Og að austanverðu, mót uppkomu sólar, voru fimmtíu álna tjöld. 14Voru fimmtán álna tjöld annars vegar með þremur stólpum og þremur undirstöðum, 15og hins vegar, báðumegin við forgarðshliðið, sömuleiðis fimmtán álna tjöld með þremur stólpum og þremur undirstöðum. 16Öll tjöld umhverfis forgarðinn voru úr tvinnaðri baðmull, 17undirstöðurnar undir stólpunum af eiri, naglarnir í stólpunum og hringrandirnar á þeim af silfri og stólpahöfuðin silfurlögð, en á öllum stólpum forgarðsins voru hringrandir af silfri. 18Dúkbreiðan fyrir hliði forgarðsins var glitofin af bláum purpura, rauðum purpura, skarlati og tvinnaðri baðmull, tuttugu álna löng og fimm álna há eftir dúkbreiddinni, eins og tjöld forgarðsins voru. 19Og þar til heyrðu fjórir stólpar og fjórar undirstöður af eiri, en naglarnir í þeim voru af silfri, stólpahöfuðin silfurlögð og hringrandirnar á þeim af silfri. 20Og allir hælarnir til tjaldbúðarinnar og forgarðsins hringinn í kring voru af eiri. 21Þetta er kostnaðarreikningur tjaldbúðarinnar, sáttmálsbúðarinnar, sem gjörður var að boði Móse með aðstoð levítanna af Ítamar, syni Arons prests. 22En Besalel Úríson, Húrssonar, af Júda ættkvísl gjörði allt það, sem Drottinn hafði boðið Móse, 23og með honum var Oholíab Akísamaksson af Dans ættkvísl; hann var hagur á steingröft, listvefnað og glitvefnað af bláum purpura, rauðum purpura, skarlati og baðmull. 24Allt það gull, sem haft var til smíðisins við alla helgidómsgjörðina og fært var að fórnargjöf, var tuttugu og níu talentur og sjö hundruð og þrjátíu siklar eftir helgidóms siklum. 25Silfrið, sem þeir af söfnuðinum, er í manntali voru, lögðu til, var hundrað talentur og seytján hundruð sjötíu og fimm siklar eftir helgidóms siklum, 26hálfsikill á mann, það er hálfur sikill eftir helgidóms sikli, á hvern þann, er talinn var í liðskönnun, tvítugur og þaðan af eldri, og voru það sex hundruð og þrjú þúsund, fimm hundruð og fimmtíu manns. 27Hundrað talenturnar af silfri voru hafðar til að steypa úr undirstöður til helgidómsins og undirstöður til fortjaldsins, hundrað undirstöður úr hundrað talentum, ein talenta í hverja undirstöðu. 28Af seytján hundruð sjötíu og fimm siklunum gjörði hann naglana í stólpana, silfurlagði stólpahöfuðin og bjó til hringrandir á þá. 29Fórnargjafa-eirinn var sjötíu talentur og tvö þúsund og fjögur hundruð siklar. 30Af honum gjörði hann undirstöðurnar til samfundatjalds-dyranna, eiraltarið, eirgrindina, sem því fylgdi, og öll áhöld altarisins, 31undirstöðurnar til forgarðsins allt í kring, undirstöðurnar til forgarðshliðsins, alla hæla til tjaldbúðarinnar og alla hæla til forgarðsins allt í kring.
Copyright information for Icelandic