‏ Deuteronomy 7

1Þegar Drottinn Guð þinn leiðir þig inn í landið, sem þú heldur nú inn í til þess að taka það til eignar, og hann hefir stökkt burt undan þér mörgum þjóðum: Hetítum, Gírgasítum, Amorítum, Kanaanítum, Peresítum, Hevítum og Jebúsítum, sjö þjóðum, sem eru fjölmennari og voldugri en þú, _ 2og er Drottinn Guð þinn gefur þær á vald þitt og þú sigrast á þeim, þá skalt þú gjöreyða þeim. Þú skalt eigi gjöra sáttmála við þær né sýna þeim vægð. 3Og eigi skalt þú mægjast við þær. Þú skalt hvorki gefa sonum þeirra dætur þínar né heldur taka dætur þeirra til handa sonum þínum. 4Því að þær mundu snúa sonum þínum frá hlýðni við mig og koma þeim til að dýrka aðra guði. Mundi reiði Drottins þá upptendrast í gegn yður og hann eyða þér skyndilega. 5Heldur skuluð þér svo með þá fara: Þér skuluð rífa niður ölturu þeirra, brjóta í sundur merkissteina þeirra, höggva sundur asérur þeirra og brenna skurðgoð þeirra í eldi. 6Því að þú ert Drottni Guði þínum helgaður lýður. Þig hefir Drottinn Guð þinn kjörið til að vera eignarlýður hans um fram allar þjóðir, sem eru á yfirborði jarðarinnar. 7Ekki var það fyrir þá sök, að þér væruð fjölmennari en allar aðrar þjóðir, að Drottinn lagði ást á yður og kjöri yður, því að þér eruð allra þjóða minnstir. 8En sökum þess að Drottinn elskar yður og af því að hann vildi halda eiðinn, sem hann sór feðrum yðar, þá leiddi hann yður burt með sterkri hendi og leysti þig úr þrælahúsinu, undan valdi Faraós, Egyptalandskonungs. 9Fyrir því skalt þú vita, að Drottinn Guð þinn er hinn sanni Guð, hinn trúfasti Guð, er heldur sáttmálann og miskunnsemina í þúsund ættliði við þá, sem elska hann og varðveita boðorð hans. 10En þeim, sem hann hata, geldur hann líka hverjum og einum sjálfum með því að láta þá farast. Hann dregur það eigi fyrir þeim, sem hata hann; hverjum og einum geldur hann þeim sjálfum. 11Fyrir því skalt þú varðveita skipanir þær, lög og ákvæði, sem ég legg fyrir þig í dag, svo að þú breytir eftir þeim. 12Ef þér nú hlýðið lögum þessum og varðveitið þau og breytið eftir þeim, þá mun Drottinn Guð þinn halda við þig þann sáttmála og miskunnsemi, sem hann sór feðrum þínum. 13Hann mun elska þig, blessa þig og margfalda þig, og hann mun blessa ávöxt kviðar þíns og ávöxt lands þíns, korn þitt, aldinlög þinn og olíu þína, viðkomu nautgripa þinna og burði hjarðar þinnar í landinu, sem hann sór feðrum þínum að gefa þér. 14Þú munt blessuð verða öllum þjóðum framar, meðal karlmanna þinna og kvenmanna skal enginn vera ófrjósamur, né heldur meðal fénaðar þíns. 15Og Drottinn mun bægja frá þér hvers konar sjúkleik, og enga af hinum vondu egypsku sóttum, sem þú þekkir, mun hann á þig leggja, heldur mun hann senda þær öllum þeim, er þig hata. 16En þú skalt eyða öllum þeim þjóðum, sem Drottinn Guð þinn gefur á þitt vald. Þú skalt ekki líta þær vægðarauga og þú skalt eigi dýrka guði þeirra, því að það mundi verða þér að tálsnöru. 17Ef þú skyldir segja í hjarta þínu: ,,Þessar þjóðir eru fjölmennari en ég; hvernig fæ ég rekið þær burt?`` 18þá ver þú ekki hræddur við þær. Minnstu þess, hvað Drottinn Guð þinn gjörði við Faraó og alla Egypta, 19hinna miklu máttarverka, er þú sást með eigin augum, táknanna og stórmerkjanna, og hvernig Drottinn Guð þinn leiddi þig út með sterkri hendi og útréttum armlegg. Eins mun Drottinn, Guð þinn, fara með allar þær þjóðir, sem þú nú ert hræddur við. 20Já, jafnvel skelfingu mun Drottinn Guð þinn senda meðal þeirra, uns allir þeir eru dauðir, sem eftir hafa orðið og falið hafa sig fyrir þér. 21Þú skalt ekki hræðast þá, því að Drottinn, Guð þinn, er með þér, hinn mikli og ógurlegi Guð. 22Drottinn Guð þinn mun stökkva þessum þjóðum á burt undan þér smám saman; þú mátt ekki eyða þeim skjótlega, svo að villidýrunum fjölgi eigi um of fyrir þig. 23En Drottinn Guð þinn mun gefa þær á þitt vald og koma miklum ruglingi á þær, uns þær eru gjöreyddar. 24Og hann mun gefa konunga þeirra í hendur þér, og þú munt afmá nöfn þeirra undir himninum. Enginn mun standast fyrir þér, uns þú hefir gjöreytt þeim. 25Skurðlíkneski guða þeirra skalt þú brenna í eldi. Þú skalt eigi girnast silfrið og gullið, sem á þeim er, né taka það handa þér, svo að það verði þér eigi að tálsnöru, því að slíkt er andstyggilegt fyrir Drottni Guði þínum. 26Og eigi skalt þú færa andstyggilegan hlut inn í hús þitt, svo að þú fallir ekki í sama bannið, sem hann er í. Þú skalt hafa megnan viðbjóð og andstyggð á því, því að það er bannfærður hlutur.
Copyright information for Icelandic