‏ Deuteronomy 16

1Gæt þess að halda Drottni Guði þínum páska í abíbmánuði, því að í abíbmánuði leiddi Drottinn Guð þinn þig á náttarþeli út af Egyptalandi. 2Og þú skalt slátra sauðum og nautum í páskafórn til handa Drottni Guði þínum á þeim stað, sem Drottinn velur til þess að láta nafn sitt búa þar. 3Þú mátt ekki eta sýrt brauð með því; í sjö daga skalt þú eta með því ósýrð brauð, neyðarbrauð _ því að í flýti fórst þú af Egyptalandi, _ til þess að þú minnist brottfarardags þíns af Egyptalandi alla ævi þína. 4Ekki má súrdeig sjást nokkurs staðar hjá þér innan þinna landamerkja í sjö daga, og ekkert af kjöti því, er þú fórnar að kveldi fyrsta daginn, skal liggja náttlangt til morguns. 5Þú mátt eigi slátra páskafórninni í einhverri af borgum þeim, er Drottinn Guð þinn gefur þér, 6heldur skalt þú slátra páskafórninni á þeim stað, sem Drottinn Guð þinn velur til þess að láta nafn sitt búa þar, að kveldi um sólarlagsbil, 7í það mund, er þú fórst af Egyptalandi. Og þú skalt sjóða það og eta á þeim stað, sem Drottinn Guð þinn velur, og morguninn eftir skalt þú snúa á leið og halda heim til tjalda þinna. 8Sex daga skalt þú eta ósýrð brauð, og sjöunda daginn skal vera hátíðafundur til handa Drottni Guði þínum. Þá skalt þú ekkert verk vinna. 9Sjö vikur skalt þú telja. Frá þeim tíma, er sigðin fyrst var borin að kornstöngunum, skalt þú byrja að telja sjö vikur. 10Þá skalt þú halda Drottni Guði þínum viknahátíðina með sjálfviljagjöfum þeim, er þú innir af hendi, eftir því sem Drottinn Guð þinn hefir blessað þig. 11Og þú skalt gleðjast frammi fyrir Drottni Guði þínum, þú og sonur þinn og dóttir þín, þræll þinn og ambátt þín og levítinn, sem er innan borgarhliða þinna, og útlendingurinn, munaðarleysinginn og ekkjan, sem með þér eru, á þeim stað, sem Drottinn Guð þinn velur til þess að láta nafn sitt búa þar. 12Og þú skalt minnast þess, að þú varst þræll í Egyptalandi, og þú skalt gæta þess að halda þessi lög. 13Laufskálahátíðina skalt þú halda í sjö daga, er þú alhirðir af láfa þínum og úr vínþröng þinni. 14Og þú skalt gleðjast á hátíð þinni, þú og sonur þinn og dóttir þín, þræll þinn og ambátt þín og levítinn, útlendingurinn, munaðarleysinginn og ekkjan, sem eru innan borgarhliða þinna. 15Í sjö daga skalt þú halda Drottni Guði þínum hátíð á þeim stað, sem Drottinn velur, því að Drottinn Guð þinn mun láta þér blessast allan jarðargróða þinn og öll handaverk þín. Fyrir því skalt þú gleðjast mikillega. 16Þrem sinnum á ári skal allt þitt karlkyn birtast frammi fyrir Drottni Guði þínum á þeim stað, sem hann mun velja: á hátíð hinna ósýrðu brauða, á viknahátíðinni og á laufskálahátíðinni. Og fyrir Drottin skal enginn koma tómhentur. 17Hver og einn skal koma með það, er hann getur látið af hendi rakna, eftir þeirri blessun, sem Drottinn Guð þinn hefir veitt þér. 18Dómendur og tilsjónarmenn skalt þú skipa í öllum borgum þínum, þeim er Drottinn Guð þinn gefur þér, eftir ættkvíslum þínum, og þeir skulu dæma lýðinn réttlátum dómi. 19Þú skalt eigi halla réttinum. Þú skalt eigi gjöra þér mannamun og eigi þiggja mútu, því að mútan blindar augu hinna vitru og umhverfir máli hinna réttlátu. 20Réttlætinu einu skalt þú fram fylgja, til þess að þú megir lifa og fá til eignar landið, sem Drottinn Guð þinn gefur þér. 21Þú skalt ekki gróðursetja aséru af neins konar tré hjá altari Drottins Guðs þíns, því er þú gjörir þér. 22Þú skalt ekki reisa þér neinn merkisstein, þann er Drottinn Guð þinn hatar.
Copyright information for Icelandic