Acts 28
1Nú sem vér vorum heilir á land komnir, fengum vér að vita, að eyjan hét Malta. 2Eyjarskeggjar sýndu oss einstaka góðmennsku. Þeir kyntu bál og hlynntu að oss öllum, en kalt var í veðri og farið að rigna. 3Páll tók saman hrísvöndul og lagði á eldinn. Skreið þá út naðra undan hitanum og festi sig á hönd hans. 4Þegar eyjarskeggjar sáu kvikindið hanga á hendi hans, sögðu þeir hver við annan: ,,Það er víst, að þessi maður er manndrápari, fyrst refsinornin lofar honum ekki að lifa, þótt hann hafi bjargast úr sjónum.`` 5En hann hristi kvikindið af sér í eldinn og sakaði ekki. 6Þeir bjuggust við, að hann mundi bólgna upp eða detta sviplega dauður niður. En þá er þeir höfðu beðið þess lengi og sáu, að honum varð ekkert meint af, skiptu þeir um og sögðu hann guð vera. 7Í grennd við stað þennan átti búgarð æðsti maður á eynni, Públíus að nafni. Hann tók við oss og hélt oss í góðu yfirlæti þrjá daga. 8Svo vildi til, að faðir Públíusar lá sjúkur með hitaköstum og blóðsótt. Páll gekk inn til hans, baðst fyrir, lagði hendur yfir hann og læknaði hann. 9Eftir þetta komu aðrir þeir, er sjúkir voru á eynni, og voru læknaðir. 10Höfðu þeir oss í hávegum, og er vér skyldum sigla, gáfu þeir oss allt, sem vér þurftum til fararinnar. 11Að liðnum þrem mánuðum lögðum vér til hafs á skipi frá Alexandríu, sem legið hafði við eyna um veturinn og bar merki Tvíburanna. 12Vér tókum höfn í Sýrakúsu og dvöldumst þar þrjá daga. 13Þaðan sigldum vér í sveig og komum til Regíum. Að degi liðnum fengum vér sunnanvind og komum á öðrum degi til Púteólí. 14Þar hittum vér bræður, og báðu þeir oss að dveljast hjá sér í viku. Síðan héldum vér til Rómar. 15Bræðurnir þar fréttu um oss og komu til móts við oss allt til Appíusartorgs og Þríbúða. Þegar Páll sá þá, gjörði hann Guði þakkir og hresstist í huga. 16Er vér vorum komnir til Rómar, var Páli leyft að búa út af fyrir sig með hermanni þeim, sem gætti hans. 17Eftir þrjá daga stefndi hann saman helstu mönnum Gyðinga. Þegar þeir voru saman komnir, sagði hann við þá: ,,Bræður, ekkert hef ég brotið gegn lýðnum eða siðum feðranna, en samt er ég fangi, framseldur Rómverjum í Jerúsalem. 18Þeir yfirheyrðu mig og vildu láta mig lausan, af því á mér hvíldi engin dauðasök. 19En Gyðingar mæltu á móti, og neyddist ég til að skjóta máli mínu til keisarans, þó eigi svo að skilja, að ég sé að kæra þjóð mína. 20Sakir þessa hef ég kallað yður hingað, að ég mætti sjá yður og tala við yður, því vegna vonar Ísraels ber ég þessa hlekki.`` 21Þeir svöruðu: ,,Vér höfum ekki fengið bréf um þig frá Júdeu, og eigi hefur heldur neinn bræðranna komið hingað og birt eða talað nokkuð illt um þig. 22Rétt þykir oss að heyra hjá þér, hvað þér býr í huga, en það er oss kunnugt um flokk þennan, að honum er alls staðar mótmælt.`` 23Þeir tóku til dag við hann, og komu þá mjög margir til hans í herbergi hans. Frá morgni til kvölds skýrði hann og vitnaði fyrir þeim um Guðs ríki og reyndi að sannfæra þá um Jesú, bæði eftir lögmáli Móse og spámönnunum. 24Sumir létu sannfærast af orðum hans, en aðrir trúðu ekki. 25Fóru þeir burt, ósamþykkir sín í milli, en Páll sagði þetta eitt: ,,Rétt er það, sem heilagur andi mælti við feður yðar fyrir munn Jesaja spámanns: 26Far til lýðs þessa og seg þú: Með eyrum munuð þér heyra og alls eigi skilja, og sjáandi munuð þér horfa og ekkert sjá. 27Því að hjarta lýðs þessa er sljótt orðið, og illa heyra þeir með eyrum sínum, og augunum hafa þeir lokað, svo að þeir sjái ekki með augunum né heyri með eyrunum og skynji með hjartanu og snúi sér, og ég lækni þá. 28Nú skuluð þér vita, að þetta hjálpræði Guðs hefur verið sent heiðingjunum, og þeir munu hlusta.`` 30Full tvö ár var Páll þar í húsnæði, sem hann hafði leigt sér, og tók á móti öllum þeim, sem komu til hans.
Copyright information for
Icelandic