‏ 2 Samuel 14

1Og er Jóab Serújuson sá, að Absalon var konungi enn hjartfólginn, 2þá sendi Jóab til Tekóa og lét sækja þangað vitra konu og sagði við hana: ,,Þú skalt láta sem þú sért harmþrungin og klæðast sorgarbúningi. Smyr þig ekki með olíu, heldur vertu eins og kona, er um langan tíma hefir syrgt látinn mann. 3Gakk síðan fyrir konung og mæl til hans á þessa leið: _`` og Jóab lagði henni orð í munn. 4Síðan gekk konan frá Tekóa fyrir konung, féll fram á ásjónu sína til jarðar og sýndi honum lotningu og mælti: ,,Hjálpa mér, konungur!`` 5Konungur sagði við hana: ,,Hvað gengur að þér?`` Hún svaraði: ,,Æ, ég er ekkja og maður minn er dáinn. 6Ambátt þín átti tvo sonu. Þeir urðu missáttir úti á akri og enginn var til að skilja þá. Laust þá annar þeirra bróður sinn og drap hann. 7Sjá, þá reis öll ættin upp á móti ambátt þinni og sagði: ,Sel fram bróðurmorðingjann, og munum vér drepa hann fyrir líf bróður hans, er hann myrti, og tortíma erfingjanum um leið.` Og þann veg vilja þeir slökkva þann neista, sem mér er eftir skilinn, svo að maðurinn minn láti hvorki eftir sig nafn né niðja á jörðinni.`` 8Og konungur sagði við konuna: ,,Far þú heim til þín. Skipa mun ég fyrir um mál þitt.`` 9En konan frá Tekóa sagði við konunginn: ,,Á mér hvíli sektin, minn herra konungur, og á ættfólki mínu, en konungurinn sé sýkn saka og hásæti hans.`` 10Þá sagði konungur: ,,Ef einhver segir eitthvað við þig, þá kom þú með hann til mín, og skal hann eigi framar áreita þig.`` 11Þá mælti hún: ,,Minnstu, konungur, Drottins, Guðs þíns, svo að hefnandinn gjöri ekki enn meira tjón, og þeir tortími ekki syni mínum.`` Hann svaraði: ,,Svo sannarlega sem Drottinn lifir, skal ekki eitt hár sonar þíns falla til jarðar.`` 12Þá mælti konan: ,,Leyf þú ambátt þinni að tala eitt orð við þig, minn herra konungur!`` Hann svaraði: ,,Tala þú.`` 13Þá mælti konan: ,,Hvers vegna hefir þú slíkt í hyggju gegn Guðs lýð? Og fyrst konungurinn hefir kveðið upp þennan dóm, þá er hann sem sekur maður, þar sem hann lætur ekki útlaga sinn hverfa heim aftur. 14Því að deyja hljótum vér, og vér erum eins og vatn, sem hellt er á jörðina og eigi verður náð upp aftur, og Guð hrífur eigi burt líf þess manns, sem á það hyggur að láta ekki útlagann vera lengur útskúfaðan frá sér. 15En fyrir því er ég komin til þess að tala þessi orð við minn herra konunginn, að fólkið gjörði mig hrædda. Þá hugsaði ambátt þín með sér: ,Ég skal tala við konunginn. Má vera að konungurinn gjöri bón ambáttar sinnar. 16Því að konungurinn mun gjöra þá bón ambáttar sinnar að frelsa hana af hendi mannsins, sem leitast við að afmá bæði mig og son minn úr arfleifð Guðs.` 17Þá hugsaði þerna þín með sjálfri sér: ,Orð míns herra konungsins skulu verða mér til fróunar, því að minn herra konungurinn líkist í því engli Guðs, að hann hlýðir á gott og illt.` Og Drottinn Guð þinn sé með þér.`` 18Þá svaraði konungur og sagði við konuna: ,,Leyn þú mig engu, er ég vil spyrja þig.`` Konan svaraði: ,,Tala þú, minn herra konungur!`` 19Þá mælti konungur: ,,Er ekki Jóab í ráðum með þér um allt þetta?`` Konan svaraði og sagði: ,,Svo sannarlega sem þú lifir, minn herra konungur, er eigi unnt að fara utan um nokkuð af því, sem minn herra konungurinn hefir sagt, hvorki til hægri né vinstri handar. Það var einmitt þjónn þinn Jóab, sem bauð mér þetta, og hann lagði þernu þinni öll þessi orð í munn. 20Jóab þjónn þinn hefir gjört þetta til þess að láta málið líta öðruvísi út, en herra minn jafnast við engil Guðs að visku, svo að hann veit allt, sem við ber á jörðinni.`` 21Þá sagði konungur við Jóab: ,,Gott og vel, ég skal gjöra það. Far þú og sæk þú sveininn Absalon.`` 22Þá féll Jóab fram á andlit sitt til jarðar og laut konungi og kvaddi hann og mælti: ,,Nú veit þjónn þinn, að ég hefi fundið náð í augum míns herra konungsins, þar sem konungurinn hefir látið að orðum þjóns síns.`` 23Síðan lagði Jóab af stað og fór til Gesúr og hafði Absalon aftur heim með sér til Jerúsalem. 24En konungur sagði: ,,Fari hann heim til sín, en fyrir mín augu skal hann ekki koma.`` Þá fór Absalon heim til sín og kom ekki fyrir augu konungs. 25Í öllum Ísrael var enginn maður eins fríður og Absalon, og fór mikið orð af því. Frá hvirfli til ilja voru engin lýti á honum. 26Og þegar hann lét skera hár sitt, _ en hann lét jafnan skera það á árs fresti, af því að það varð honum svo þungt, að hann hlaut að láta skera það _, þá vó hárið af höfði hans tvö hundruð sikla á konungsvog. 27Og Absalon fæddust þrír synir og ein dóttir, er Tamar hét. Hún var kona fríð sýnum. 28Absalon var svo tvö ár í Jerúsalem, að hann kom ekki fyrir augu konungs. 29Þá sendi hann boð til Jóabs þess erindis, að hann færi til konungs, en Jóab vildi ekki koma til hans. Sendi hann þá í annað sinn, en hann vildi ekki koma. 30Þá sagði Absalon við þjóna sína: ,,Sjáið, Jóab á akur áfastan við minn og þar hefir hann bygg. Farið og kveikið í honum.`` Og þjónar Absalons kveiktu í akrinum. 31Þá fór Jóab af stað og kom í hús Absalons og sagði við hann: ,,Hví hafa þjónar þínir kveikt í akri mínum?`` 32Absalon sagði við Jóab: ,,Sjá, ég sendi boð til þín og lét segja: ,Kom þú hingað og vil ég senda þig til konungs með þessa orðsending: Til hvers kom ég frá Gesúr? Betra væri mér að vera þar enn. En nú vil ég fá að koma fyrir augu konungs. Sé ég sekur, þá drepi hann mig.``` 33Þá gekk Jóab fyrir konung og sagði honum þetta. Lét hann þá kalla Absalon, og gekk hann fyrir konung og laut á andlit sitt til jarðar fyrir konungi. Og konungur kyssti Absalon.
Copyright information for Icelandic