‏ 2 Kings 24

1Á hans dögum fór Nebúkadnesar konungur í Babýlon herför þangað, og varð Jójakím honum lýðskyldur í þrjú ár. Síðan brá hann trúnaði við hann. 2Þá sendi Drottinn í móti Jójakím ránsflokka Kaldea, ránsflokka Sýrlendinga, ránsflokka Móabíta og ránsflokka Ammóníta. Hann sendi þá gegn Júda til þess að eyða landið samkvæmt orði Drottins, því er hann hafði talað fyrir munn þjóna sinna, spámannanna. 3Að boði Drottins fór svo fyrir Júda, til þess að hann gæti rekið þá burt frá augliti sínu sakir synda Manasse samkvæmt öllu því, er hann hafði gjört, 4svo og sakir þess saklausa blóðs, er hann hafði úthellt, svo að hann fyllti Jerúsalem saklausu blóði _ það vildi Drottinn ekki fyrirgefa. 5Það sem meira er að segja um Jójakím og allt, sem hann gjörði, það er ritað í Árbókum Júdakonunga. 6Og Jójakím lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum, og Jójakín sonur hans tók ríki eftir hann. 7En Egyptalandskonungur fór enga herför framar úr landi sínu, því að konungurinn í Babýlon hafði unnið land allt frá Egyptalandsá að Efratfljóti, það er legið hafði undir Egyptalandskonung. 8Jójakín var átján ára gamall, þá er hann varð konungur, og þrjá mánuði ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Nehústa Elnatansdóttir og var frá Jerúsalem. 9Hann gjörði það, sem illt var í augum Drottins, með öllu svo sem gjört hafði faðir hans. 10Um þær mundir fóru þjónar Nebúkadnesars, konungs í Babýlon, herför til Jerúsalem, og varð borgin í umsátri. 11Og Nebúkadnesar Babelkonungur kom sjálfur til borgarinnar, þá er þjónar hans sátu um hana. 12Gekk þá Jójakín Júdakonungur út á móti Babelkonungi ásamt móður sinni, þjónum sínum, herforingjum og hirðmönnum, og Babelkonungur tók hann höndum á áttunda ríkisstjórnarári hans. 13Og hann flutti þaðan alla fjársjóðu musteris Drottins og fjársjóðu konungshallarinnar og tók gullið af öllum áhöldum, er Salómon Ísraelskonungur hafði gjöra látið í musteri Drottins, eins og Drottinn hafði sagt. 14Og Nebúkadnesar herleiddi alla Jerúsalem og alla höfðingja og alla vopnfæra menn, tíu þúsund að tölu, svo og alla trésmiði og járnsmiði. Ekkert var eftir skilið nema almúgafólk landsins. 15Og hann herleiddi Jójakín til Babýlon. Og konungsmóður og konur konungsins og hirðmenn hans og höfðingja landsins herleiddi hann og frá Jerúsalem til Babýlon. 16Svo og alla vopnfæra menn, sjö þúsund að tölu, og trésmiði og járnsmiði, þúsund að tölu, er allir voru hraustir hermenn, _ þá herleiddi Nebúkadnesar til Babýlon. 17Og konungurinn í Babýlon skipaði Mattanja föðurbróður Jójakíns konung í hans stað og breytti nafni hans í Sedekía. 18Sedekía var tuttugu og eins árs að aldri, þá er hann varð konungur, og ellefu ár ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Hamútal Jeremíadóttir og var frá Líbna. 19Hann gjörði það, sem illt var í augum Drottins, með öllu svo sem gjört hafði Jójakím. 20Vegna reiði Drottins fór svo fyrir Jerúsalem og Júda, uns hann hafði burtsnarað þeim frá augliti sínu. En Sedekía brá trúnaði við Babelkonung.
Copyright information for Icelandic