1 Samuel 2
1Hanna gjörði bæn sína og mælti: Hjarta mitt fagnar í Drottni, horn mitt er hátt upp hafið fyrir fulltingi Guðs míns. Munnur minn er upp lokinn gegn óvinum mínum, því að ég gleðst yfir þinni hjálp. 2Enginn er heilagur sem Drottinn, því að enginn er til nema þú, ekkert bjarg er til sem vor Guð. 3Mælið eigi án afláts drambyrði, ósvífni komi eigi út af munni yðar. Því að Drottinn er Guð, sem allt veit, og af honum eru verkin vegin. 4Bogi kappanna er sundur brotinn, en máttfarnir menn gyrðast styrkleika. 5Mettir leigja sig fyrir brauð, en hungraðir njóta hvíldar. Óbyrjan fæðir jafnvel sjö, en margra barna móðirin mornar og þornar. 6Drottinn deyðir og lífgar, færir til Heljar niður og leiðir upp þaðan. 7Drottinn gjörir fátækan og ríkan, niðurlægir og upphefur. 8Hann reisir hinn lítilmótlega úr duftinu, lyftir hinum snauða upp úr skarninu, leiðir þá til sætis hjá þjóðhöfðingjum og setur þá á tignarstól. Því að Drottni heyra stólpar jarðarinnar, á þá setti hann jarðríkið. 9Fætur sinna guðhræddu varðveitir hann, en hinir guðlausu farast í myrkri, því að fyrir eigin mátt sigrar enginn. 10Þeir sem berjast móti Drottni, verða sundur molaðir, hann lætur þrumur af himni koma yfir þá. Drottinn dæmir endimörk jarðarinnar. Hann veitir kraft konungi sínum og lyftir upp horni síns smurða. 11Síðan fór Elkana heim til sín í Rama, en sveinninn gegndi þjónustu Drottins hjá Elí presti. 12Synir Elí voru hrakmenni. Þeir skeyttu ekki um Drottin, 13né hvað prestinum bar með réttu af hálfu lýðsins. Hvenær sem einhver færði sláturfórn, þá kom sveinn prestsins, meðan verið var að sjóða kjötið, með þrítenntan fork í hendinni 14og rak hann ofan í ketilinn, eða pottinn eða suðupönnuna eða grýtuna, og allt sem upp kom á forkinum, það tók presturinn handa sér. Svo fóru þeir með alla Ísraelsmenn, sem komu þangað til Síló. 15Meira að segja, áður en fitan var brennd, kom sveinn prestsins og sagði við þann, sem fórnaði: ,,Gef mér kjöt til þess að steikja handa prestinum. Hann vill ekki taka við soðnu kjöti af þér, heldur hráu.`` 16Segði maðurinn þá við hann: ,,Fyrst verður þó að brenna fituna; tak síðan slíkt er þú girnist!`` þá svaraði hann: ,,Nei, heldur skalt þú gefa það nú þegar, ella mun ég taka það með valdi.`` 17Synd hinna ungu manna var mjög mikil frammi fyrir Drottni, því að þeir lítilsvirtu fórn Drottins. 18En Samúel gegndi þjónustu frammi fyrir Drottni sem ungur sveinn, skrýddur línhökli. 19Og móðir hans var vön að gjöra honum lítinn möttul og færði honum hann á ári hverju, þá er hún kom með manni sínum til þess að færa hina árlegu fórn. 20Þá blessaði Elí Elkana og konu hans og sagði: ,,Drottinn gefi þér afkvæmi við þessari konu í stað hans, er léður var Drottni.`` Síðan fóru þau heim til sín. 21Og Drottinn vitjaði Hönnu, og hún varð þunguð og fæddi þrjá sonu og tvær dætur. En sveinninn Samúel óx upp hjá Drottni. 22Elí gjörðist mjög gamall og heyrði allt um það, hvernig synir hans fóru með allan Ísrael og að þeir legðust með konum þeim, sem gegndu þjónustu við dyr samfundatjaldsins. 23Og hann sagði við þá: ,,Hvers vegna hegðið þið ykkur svo? Því að ég hefi heyrt allan þennan lýð tala um illt athæfi ykkar. 24Eigi má svo vera, synir mínir! Það er ekki fallegur orðrómur, sem ég heyri lýð Drottins vera að breiða út. 25Syndgi maður á móti öðrum manni, þá sker Guð úr, en syndgi maður móti Drottni, hver má þá biðja honum líknar?`` En þeir hlýddu ekki orðum föður síns, því að Drottinn vildi deyða þá. 26En sveinninn Samúel óx og þroskaðist og varð æ þekkari bæði Drottni og mönnum. 27Guðsmaður einn kom til Elí og sagði við hann: ,,Svo segir Drottinn: Ég opinberaði mig ættmönnum föður þíns, þá er þeir heyrðu til húsi Faraós í Egyptalandi, 28og ég valdi mér þá fyrir presta úr öllum ættkvíslum Ísraels, til þess að þeir gengju upp að altari mínu til að færa reykelsisfórn og bæru hökul frammi fyrir mér, og ég hefi gefið húsi föður þíns allar eldfórnir Ísraelsmanna. 29Hvers vegna fótum troðið þér sláturfórnir mínar og matfórnir, sem ég hefi fyrirskipað í bústað mínum? Og þú metur sonu þína meira en mig, er þér feitið yður á hinu besta af öllum fórnum Ísraels, lýðs míns! 30Fyrir því segir Drottinn, Ísraels Guð: Ég hefi sagt: ,Þitt hús og hús föður þíns skal ganga fyrir augliti mínu eilíflega.` En nú segir Drottinn: Það sé fjarri mér. Því að ég heiðra þá, sem mig heiðra, en þeir, sem fyrirlíta mig, munu til skammar verða. 31Sjá, þeir tímar munu koma, að ég sundurbrýt arm þinn og arm ættar þinnar, svo að enginn verður gamall í húsi þínu. 32Og þú munt sjá ofsjónum yfir þeirri farsæld, sem Ísrael mun hlotnast, og aldrei framar skal nokkur verða gamall í húsi þínu. 33En einum af þínum vil ég eigi útrýma frá altari mínu. En ég mun láta augu þín daprast og sálu þína örmagnast, og öll viðkoma húss þíns skal falla fyrir sverði manna. 34Og þetta skal vera þér merkið, sem koma mun fram á báðum sonum þínum, Hofní og Pínehas: Á sama degi munu þeir báðir deyja. 35En ég mun skipa mér til handa trúan prest, og hann mun gjöra að mínum vilja og mínu skapi. Honum mun ég reisa stöðugt hús, og hann skal ganga fyrir augliti míns smurða alla daga. 36Þá mun það verða, að hver sá, sem eftir er í húsi þínu, mun koma til að lúta honum til þess að fá smáskilding eða brauðhleif, og segja: ,Kom þú mér niður við eitthvert prestsembættið, svo að ég fái brauðbita að eta.```
Copyright information for
Icelandic